140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:35]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera ánægður með boðorðin 10 óbreytt og kappkosta að fylgja þeim í hvívetna. (Utanrrh.: Ég sagði ekkert um það.) Ég tók því sem svo. En ég á fyrir mína parta óskaplega erfitt með að samsama mig á þessum tímum valfrelsis við boðorð eins og „Ég er drottinn guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa“, það finnst mér dálítið frekjulegt. Sömuleiðis líst mér ekki á eignarréttarákvæðið sem hljóðar svo: „Þú skalt ekki stela.“ Mér finnst líka mikið ófrelsi og gamaldags sjónarmið felast í „Þú skalt ekki drýgja hór“. Það er ýmislegt í þessum boðorðum sem ég vildi ræða nánar við hæstv. utanríkisráðherra og mun gera við fyrstu hentugleika.

Það er rétt skilið skörpum skilningi hæstv. utanríkisráðherra að ég stingi upp á því að sá möguleiki verði inni í myndinni í því verkferli sem fram undan er að lagðir verði fram valkostir við ýmsa kafla stjórnarskrárinnar. Það skiptir máli að sem víðtækastur stuðningur sé við stjórnarskrá landsins og það skiptir líka meginmáli að sem flestir telji sig geta lifað við stjórnarskrána. Öll þurfum við að lifa saman í þessu landi og meirihlutavaldi þarf stundum að beita, en því skal jafnan beitt þannig að hugsað sé út í það að líf minni hlutans verði ekki óbærilegt.