140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:40]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur lokaorð um þetta mál og lýsa ánægju minni með þær jákvæðu undirtektir sem það hefur þó fengið frá þeim sem hafa um það talað. Ég vona að það sé ekki vísir að því sem koma skal í þinginu að svo fáir þingmenn hafi verið í þingsal og tekið þátt í umræðunni, en það mun koma í ljós.

Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ábendingar hans. Þær koma að gagni og við munum koma þeim áleiðis.

Varðandi frumvarp hans um breytingar á 79. gr. hef ég alltaf stutt það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þjóðin fái að ráða breytingum á stjórnarskránni. Ég hugsaði svolítið um það einmitt þegar ég var að velta fyrir mér þessari þingsályktunartillögu og ræða hana við aðra. Ástæðan fyrir því að ég lagði ekki til þá leið eingöngu var einfaldlega sú að það er búin að vera í gangi mikil umræða og mikil vinna bæði á þingi og utan þings um þessa nýju stjórnarskrá. Mér fannst ekki gott að setja það mál allt í salt fram yfir næstu tvennar þingkosningar. Að öðru leyti er ég alveg sammála aðferðafræði hv. þingmanns að þannig hefði verið heppilegast að gera þetta í upphafi. Það hefði verið heppilegast þegar það lá skýrt fyrir að fara ætti í breytingar á stjórnarskránni að gera fyrst breytingar á 79. gr. og takast síðan á við hitt verkefnið. En við erum þar sem við erum í dag og verðum kannski að reyna að vinna úr þeirri stöðu eins vel og við getum.

Mig langar að minnast á nokkur atriði sem eru mikilvæg í öllu þessu samhengi. Á sínum tíma samþykkti allsherjarnefnd Alþingis að þetta ferli yrði við stjórnarskrárgerðina og hefur það vakið gríðarlega athygli langt út fyrir landsteinana því að hér hafa menn samið drög að nýrri stjórnarskrá með aðferðum sem hafa ekki þekkst áður og fólk sem ég hef talað við frá erlendum fjölmiðlum telur það vera til algerrar fyrirmyndar. Þetta ferli hófst á því að Alþingi kaus sjö sérfræðinga í stjórnlaganefnd til að vinna í málinu, en áður en kom að því var boðað til þjóðfundar yfir eitt þúsund manna völdum af handahófi úr þjóðskrá til að leggja fram hugmyndir sínar að nýrri stjórnarskrá. Sá þjóðfundur og niðurstöður hans rötuðu svo til stjórnlaganefndar sem vann gríðarlega gott starf, lagði fram skýrslu í tveimur bindum um hugmyndir að nýrri stjórnarskrá, lagði fram drög að tveimur nýjum stjórnarskrám líka sem var mjög merkilegt framtak og afhenti svo stjórnlagaráðinu sem upphaflega var stjórnlagaþing. Sú kosning sem viðhöfð var við kjör í stjórnlagaþingið á sínum tíma var líka mjög merkileg fyrir það að hún var fyrsta persónukjörið á Íslandi þar sem yfir 500 manns gáfu sig fram til að taka þátt í vinnunni. Þótt Hæstiréttur hafi lýst þá kosningu ógilda var ég algjörlega ósammála þeirri niðurstöðu og fannst hún vera meira gerð til að leggja stein í götu ferlisins en vera af almennilegum rökum lögð fram. Þetta ferli allt saman hefur vakið gríðarlega athygli langt út fyrir landsteinana. Ég lýsti þessu síðast í gær fyrir ítölskum blaðamanni. Hann sagði: Ég er frá kaþólsku landi og bið ekki oft til guðs en guð gefi að Ítalía geti einhvern tímann farið í svona ferli með stjórnarskrá sína.

Þetta mál hefur ekki fengið næga umfjöllun á Íslandi og í íslenskum fjölmiðlum. Það kemur mér á óvart hvað t.d. virðulegur þingfréttaritari Ríkisútvarpsins hefur sýnt þessu lítinn áhuga. Það er kominn tími til að breyting verði á. Alþingi þarf einfaldlega að hafa frumkvæðið ef Ríkisútvarpið ætlar ekki að sinna skyldum sínum í því máli.

Menn hafa talað hér um atkvæðagreiðslur um einstakar greinar nýrrar stjórnarskrár. Eins og ég velti hér upp í upphafi hefði óskastaða mín verið sú að stjórnlagaráðið hefði lagt fram fleiri en einn valkost við einstakar greinar stjórnarskrárinnar sem ekki varð samstaða innan stjórnlagaráðsins um endanlega niðurstöðu á. Stjórnlagaráðið kaus að fara hina leiðina og vera sammála um allar greinar og niðurstöðuna í heild. Engu að síður er hægt ef menn vilja og það er gert ráð fyrir því í þessari þingsályktunartillögu að hafa jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu um einstakar greinar þar sem það á við. Það skiptir náttúrlega máli að stjórnarskráin sé heilt samhangandi plagg. Það er ekki hægt að fella út hvaða greinar sem er, en það eru engu að síður þó nokkrar einstakar greinar sem mega falla út ef menn kjósa svo án þess að plaggið í heild sinni eyðileggist. Það er vonandi nokkuð sem menn velta fyrir sér í framhaldinu, að bjóða upp á valkost, ef þeim sýnist svo. Það má líka greiða atkvæði um einstaka kafla. Ég fæ þó ekki séð að stjórnarskráin yrði burðug ef einhver einn heill kafli yrði felldur út úr henni. Það gæti orðið svolítið slæm niðurstaða.

Það er rétt að hvorki formaður né varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið við þessa umræðu þó að varaformaður hennar, hv. þm. Róbert Marshall, sé meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Honum er vel kunnugt um innihald þess. Ég efast ekki um að formaður og varaformaður og þeir nefndarmenn sem ekki hafa verið við umræðuna muni fara yfir hana og taka fullt tillit til þeirra athugasemda sem þingmenn hafa gert. Ég vona að þeir geri það.

Ég er líka sammála því sem hv. þm. Lúðvík Geirsson sagði, að þetta þyrfti að vera forgangsmál á þessu þingi. Ég held að það væri góður bragur á því. Þetta fer til nefndar strax í þessari viku og verður vonandi tekið fyrir á fundi hennar í næstu viku. Skýrsla forsætisnefndar um frumvarpið verður svo tekin á dagskrá á þriðjudag í næstu viku og rædd í þinginu líka. Allar aðstæður eru því fyrirliggjandi til að það geti orðið góður bragur á framhaldi og framvindu þessa máls. Miðað við þær viðtökur sem það hefur fengið í þingsal í dag held ég að svo verði og að við munum komast frá því með sóma. Leiðin hefur verið allgrýtt hingað til en við höfum engu að síður náð að leysa úr þeim vandamálum með góðum niðurstöðum og ég bind bara miklar vonir við að svo verði áfram.