140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Mér finnst hann vera dálítið óþreyjufullur, kannski að vonum, margir eru það. Hins vegar getur verið verulega skaðlegt að flýta sér um of með svo viðamikið mál því að menn þurfa náttúrlega að vita vel hvað þeir eru að gera. Ég held að það sé engin goðgá að menn bíði til næstu alþingiskosninga. Það er billegt að fara í kosningu með forsetakosningunum næsta sumar. Það sparar í rauninni ekki neitt því að sú kosning hefði ígildi skoðanakönnunar. Það er bara hægt að gera Gallup-skoðanakönnun til að vita afstöðu fólks til stjórnarskrárinnar því að kosning hefur ekkert gildi, ekki neitt eins og ég gat um áðan.

Það sem ég ætla að spyrja hv. þingmann um er ræða forseta Íslands hér við þingsetningu á laugardaginn. Þar túlkaði forseti Íslands endanlega — vegna þess að það sem forseti Íslands segir í ræðupúlti Alþingis hefur mjög mikið vægi — marga liði nýju stjórnarskrárinnar og greinar með þeim hætti að ekki verður túlkað öðruvísi héðan í frá. Margt af því var ekki eins og ég hafði skilið það. Ég vil spyrja hv. þm. Þór Saari hvort það geti verið að forsetinn hafi á einhvern hátt jafnvel hindrað ferlið með þessum túlkunum vegna þess að það er ekki víst að menn séu sáttir við þær. Hvað eiga menn þá að gera? Þarf þá að umskrifa allt frumvarpið eða hugmyndirnar eða hvað það nú kallast, eða hvað þurfa menn að gera? Það var nefnilega afdrifaríkt sem forseti Íslands (Forseti hringir.) gerði.