140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir framsögu hennar í þessu máli sem ég er mjög áfram um að gangi til nefndar og fái efnislega umfjöllun hjá Alþingi enda tel ég þetta hið þarfasta mál.

Mig langaði eiginlega að velta upp í þessu sambandi hvort hv. þingmaður hafi velt fyrir sér hvaða hlutverki fjármálalæsi mundi gegna í aukinni neytendavernd á fjármálamarkaði. Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að ein besta leiðin til að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði sé að auka þekkingu, skilning og menntun almennings í víðasta skilningi þess orðs á því hvernig peningar virka í raun og veru, hvað eru óverðtryggð lán og hvað eru verðtryggð lán og hvernig best er að byggja upp sparnað og hvernig vextir virka o.s.frv. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar eru að mörgu leyti eftirbátar annarra þjóða er kemur að fjármálalæsi, þ.e. læsi almennings á því hvernig fjármál heimila, fyrirtækja og fjármál í víðara samhengi virka. Það sem ég mundi vilja leggja áherslu á í þessu sambandi við hv. þingmann og framsögumann þessarar tillögu er mikilvægi þess að styrkja stöðu fjármálalæsis í landinu. Hvernig sér hún fyrir sér samspilið á milli þessarar þingsályktunartillögu og þess hvernig við getum betur styrkt þekkingu almennings á fjármálamarkaði heilt yfir?