140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir ræðuna. Mig langaði að spyrja hann út í túlkun hans á 2. gr. laga 151/2010, sem er bráðabirgðaákvæði nr. 10 í lögunum nr. 38/2001, en fyrri hluti hennar hljómar svo:

„Hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fer um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna.“

Hér er nefnilega talað um ofgreiðslu. Lögin, sem komu úr ráðuneyti ráðherrans upphaflega en voru unnin og samþykkt á Alþingi, gera nefnilega ekki ráð fyrir því að um vangreiðslur geti verið að ræða.

Ég hef skoðað þessi mál ansi vel. Ég hef séð mörg dæmi þess að um vangreiðslu sé að ræða, sérstaklega hjá fólki sem tók þessi lán snemma, um 2004–2006, og fær yfir sig svaðalega vexti árum saman sem var ekki það sem um var samið — það tók jafnvel lán þegar krónan var veik 2004 og um mitt ár 200 6 — fær hækkun á höfuðstól. Hvar er eignarréttur þessa fólks, fyrst hann var nefndur?