140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:53]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti þetta ekki sannfærandi ræða hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra leggur mikla áherslu á að fólk geti alltaf leitað réttar síns en það er ekki réttur sem hæstv. ráðherra gefur fólkinu í landinu. Sem betur fer er það ekki undir hæstv. ráðherra komið hvort fólk leitar réttar síns, ég veit ekki af hverju verið er að staglast á því. Það er bara réttur fólks í þessu landi. Ég vona að það hafi ekki á neinum tímapunkti verið hugmynd hjá hæstv. ríkisstjórn að taka þann rétt af fólki. Þegar maður þarf að hlusta á sífelldar endurtekningar frá hæstv. ráðherra um að fólk hafi heimild til að sækja rétt sinn til dómstóla fer maður að spyrja sig hvort hæstv. ríkisstjórn finnist þessi réttur ekki sjálfsagður.

En látum það liggja milli hluta. Hæstv. ráðherra segir að hann hafi ekki haft áhuga á því að ríkisvæða endurreikninginn, ef ég skil hann rétt, ég held að hann hafi sagt það orðrétt. En á sama tíma segir hæstv. ráðherra að hann komi með lög með einfaldri reiknireglu. Hann sagði líka við annað tilefni að ástæðan fyrir að hann setti ekki útfærslu á reiknireglunni í reglugerð eins og honum var heimilt að gera samkvæmt lögum, hefði verið að það væri svo skýrt í lögunum.

Það þýðir þá væntanlega að ef maður er með skýra reiknireglu ríkisvæðir maður auðvitað endurreikninginn, það er bara svo einfalt, enda hefur hver einasti banki og hver einasta fjármálastofnun alltaf vísað í lögin í þessum tilfellum og sagt: Þarna er reiknireglan. Það er þess vegna sem við reiknum þetta svona út. Mér finnst það ekki ganga upp.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að fram hefur komið í fyrirspurn sem ég lagði fram að reiknaðir eru mánaðarlegir vaxtavextir sem kemur betur út fyrir fjármálafyrirtækin: Telur hæstv. ráðherra að það sé heimilt?