140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi segi ég ítrekað að ekki sé verið að taka neinn rétt af fólki og að fólk geti alltaf borið mál sín undir dómstóla, vegna þess að ég hef ítrekað legið undir ámælum frá þingmönnum, þar á meðal frá hv. þingmanni, um að með þessum lögum hafi meiri hluti Alþingis og ég haft þann eindregna vilja að taka rétt af fólki. Það er enginn réttur tekinn af fólki með þessum lögum. Það er verið að tryggja að allir njóti a.m.k. þess réttar sem fólst í dómi Hæstaréttar 16. september og 16. júní í fyrra. Ef fólk á ríkari rétt hefur það hann, að sjálfsögðu, og það hefur aldrei verið vilji löggjafans í þessu máli að rýra rétt fólks á einn eða neinn hátt.

Hv. þingmaður snýr út úr orðum mínum varðandi það að ríkisvæða útreikninginn. Ég sagði ósköp einfaldlega að við vildum ekki ríkisvæða tjónið af endurreikningnum. Við vildum ekki skapa ríkinu bótaskyldu sem hefði valdið því að bankar hefðu ekki þurft að endurgreiða fólki, en að við hefðum þurft að endurgreiða bönkum. Það er þess vegna sem við vildum fara varlega. Við vildum að bankar borguðu allt sem oftekið hafði verið til fólks, en við vildum ekki ganga það langt að við værum mögulega að segja þeim að borga meira en þeim hefði borið að borga og þar af leiðandi að skapa bótaskyldu fyrir ríkið. Það er sú ríkisvæðing skulda sem við vildum passa að fara ekki í. Það var höfuðmarkmiðið.

Hv. þingmaður horfir fram hjá því sem ég sagði í ræðu minni áðan um ákvæði um vaxtavexti, vissulega eru þeir reiknaðir mánaðarlega í sumum endurreikningum. Við höfum hvatt til þess að fjármálafyrirtækin geri það sem komi skuldara best. Í ljósi þess að í dóminum stóð að það væri vaxtaákvörðunin ein sem væri ógild en ekki samningurinn að öðru leyti hafa bankar sterk rök fyrir því að innheimta vaxtavexti mánaðarlega ef upphaflegur samningur kveður á um vaxtavöxtun mánaðarlega. Á það álit (Forseti hringir.) verður þá að láta reyna fyrir dómi ef menn vilja ganga lengra í því efni.