140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna kemur enn og aftur hinn ómálefnalegi áburður um að verið sé að verja hagsmuna fjármálafyrirtækja. Það er mjög merkilegt vegna þess að ég tók einmitt skýrt fram að við værum að verja hagsmuni ríkissjóðs og passa að ríkisvæða ekki tjónið. Ef túlkun hv. þingmanns er rétt mun Hæstiréttur að sjálfsögðu staðfesta það í dómi. Hver mun þá borga fólki það sem fólkið á rétt á? Það verða fjármálafyrirtækin.

Hin leiðin sem hv. þingmaður vill taka áhættuna af og vill að farin verði er sú að við mælum fyrir um tiltekna aðferð og ef Hæstiréttur kemst að gagnstæðri niðurstöðu þurfum við að borga fjármálafyrirtækjum bætur. Það er sú niðurstaða sem ég er ekki tilbúinn að taka áhættuna af. Ég vil ekki að þetta hörmungarmál verði til þess að við borgum almannafé inn í banka til þess að bæta þeim það sem við kunnum mögulega að skerða réttindi þeirra um. Það eru bankarnir sem eiga að borga fólki allt sem oftekið var — allt. Við settum ákveðna reiknireglu. Það kann vel að vera að fólk eigi meiri rétt. (Forseti hringir.) Hann er ekki af fólki tekinn. Það er ósanngjarnt, ómálefnalegt og órökstutt af hv. þingmanni að koma aftur og aftur fram með þann áburð. (GÞÞ: Þú hlustar bara ekki.)