140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég flutti sem félags- og tryggingamálaráðherra frumvarp sem heimilaði Íbúðalánasjóði að veita óverðtryggð íbúðalán og það var loks samþykkt eftir að hafa verið endurflutt 18 mánuðum eftir að ég lagði það fram, þannig að ekki lá Alþingi Íslendinga mikið á að koma á möguleikum að veita óverðtryggð lán til íbúðarhúsnæðis.

Vægi verðtryggingar er allt of mikið í samfélaginu. Vandinn er hins vegar þess eðlis að hann verður ekki leystur auðveldlega með afturvirkum hætti. Við prófuðum það í fyrra og fórum yfir það í mjög ítarlegri umræðu með aðkomu allra flokka og hagsmunaaðila hvort mögulegt væri að bæta hinn svokallaða forsendubrest og niðurstaðan varð sú að það væri ófær leið. Það mundi þýða að við þyrftum að rýra lífeyrisréttindi almennings, við þyrftum að fara í stórfelldar eignatilfærslur sem væru umfram það sem réttlætanlegt væri og við gætum heldur ekki lagt þær byrðar á almenna skattborgara í landinu.

Verðtrygging er lántaka með breytilegum vöxtum. Vandinn á Íslandi er sá að það er ekki hægt að taka fastvaxtalán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Þó að maður taki lán með föstum vöxtum og verðtryggingu tekur maður í reynd lán með breytilegum vöxtum vegna þess að verðbólguþátturinn mælist inni í verðtryggingunni.

Við þyrftum stöðugri gjaldmiðil þar sem við hefðum lánveitendur sem væru tilbúnir að veita langtímalán á föstum vöxtum. Þess vegna held ég að við verðum að horfast í augu við að verðtrygging er óyndisfylgifiskur íslenskrar krónu. Óverðtryggð lán verða væntanlega ekki veitt nema til skemmri tíma í senn, þá með endurákvörðunarákvæðum eftir einhvern ákveðinn tíma. Bankarnir eru að feta sig af stað í veitingu óverðtryggðra íbúðalána. Íbúðalánasjóður mun bætast í þann hóp. Vonandi mun þá myndast markaður fyrir óverðtryggð íbúðalán en það verður ekki með fastvaxtaákvæðum til áratuga heldur til einhvers afmarkaðs tíma.