140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt, ég deili skoðunum hæstv. ráðherra í þeim efnum að þessi vandi er ekki auðleystur. En ég minni á í því sambandi að verðtryggingin er mannanna verk og það er þá varla ofvaxið kröftum okkar að finna leiðir til losna undan henni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að fara aftur í þá vinnu sem unnin var varðandi möguleika á því að bæta það sem kallað hefur verið forsendubrestur lántakenda við hrunið, og hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að unnið verði að því máli aftur.

Ég get ekki með neinum hætti fallist á að það sé útilokað mál og tek undir kröfur fólks sem hljóma orðið mjög víða í íslensku samfélagi í dag um að gera breytingar á þessu til hagsbóta fyrir þá sem greiða sýknt og heilagt af skuldum sem aldrei lækka. Það er óviðunandi veruleiki og er ekki okkur til góðs. Ég minni hæstv. ráðherra á í því sambandi að 3.700 manns hafa flúið skuldir sínar nú þegar frá Íslandi og eru á vanskilaskrá hér heima.