140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:07]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér ræðum við alveg glænýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2010, og breytingin sem um ræðir er sú sem kom með lögum nr. 151/2010, en það eru hin svokölluðu gengislög. Á síðasta þingi lagði ég fram frumvarp mjög svipað þessu þar sem útfærslan var reyndar aðeins öðruvísi en ég náði aldrei að mæla fyrir því. Það er því með ánægju að ég tek þátt í þessari umræðu í dag. Þetta styð ég.

Ég tel að í desember 2010 hafi Alþingi gert mjög alvarleg mistök með setningu þeirra laga. Lögin umbuna þeim sem framdi glæpinn, og það eru fjármálafyrirtækin. Í mörgum tilfellum refsa þau brotaþolanum, sem sagt hinum skuldsetta, með framsetningu endurútreikninganna.

Málsmeðferðin í þinginu var mjög sérstök. Málið fór fyrir efnahags- og skattanefnd þingsins en ekki viðskiptanefnd. Viðskiptanefnd er sú nefnd sem ég hefði talið eðlilegt að tæki málið fyrir. En ég er alls ekki viss um að málið hefði verið afgreitt úr viðskiptanefnd þannig að það hefur kannski verið mat manna að setja það frekar í efnahags- og skattanefnd. Ég fékk að vera áheyrnarfulltrúi með sérstöku leyfi formanns þeirrar nefndar, ég átti ekki sæti í henni, á meðan málið færi þar í gegn. Ég hafði miklar áhyggjur af þessu og þær áhyggjur mínar held ég að hafi verið á rökum reistar.

Það fór samt svo að formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, sagði sig frá málinu og sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Það var varaformaðurinn, Álfheiður Ingadóttir, sem keyrði málið í gegn, en svo vill til að hún er gift þeim lögfræðingi sem hefur unnið hvað mest fyrir Lýsingu í þessum málaflokkum. Mér finnst ótrúlegt að sá þingmaður hafi ekki talið sig vanhæfan til þess að fjalla um þessi mál, sérstaklega þar sem frumvarpið, sem varð svo að lögum, er í raun og veru nákvæmlega samhljóma því sem eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur hafði sagt við málflutning um hans sýn á málið og hvað lög vantaði í landinu.

Við atkvæðagreiðslu varaði ég mjög við þessu og ég ætla að fá að vitna í það, með leyfi forseta, ég sagði:

„Ég vil benda á að það er fullkomlega galið að afgreiða þetta mál í dag. Stjórnvöld beindu almenningi inn í dómskerfið til að fá úrlausn mála sinna og það er þó lágmark að bíða eftir ráðgefandi niðurstöðu Hæstaréttar um málefni þeirra sem eru með gengistryggð húsnæðislán. Mig langar að minna á 36. gr. c samningslaga nr. 7/1936, en þar segir í 2. mgr.:

„Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.““

Mér fannst fyrirhuguð lagasetning ganga gegn því og ég er enn þeirrar skoðunar. Á það hefur ekki verið hlýtt.

Atkvæði féllu þannig að það voru þrír þingmenn sem sögðu nei og það voru Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir og sú sem hér stendur. Hins vegar var fjöldi þingmanna sem greiddi ekki atkvæði, alls 22, og flestir þingmennirnir sem voru viðstaddir voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að ógleymdum Helga Hjörvar, sem var formaður efnahags- og skattanefndar. Mér fannst fjarvera þingmanna frekar grunsamleg og fór einhvern tímann í gegnum það að fólk hefði verið í málunum bæði fyrir og eftir þetta mál. Þetta var greinilega mjög umdeilt mál á þinginu.

Ég tel að þingmenn hafi verið blekktir með þeim dæmum sem sett voru fram í efnahags- og skattanefnd. Ég og Eygló Harðardóttir, sem áttum þó hvorug sæti í nefndinni, fengum að vera viðstaddar þessa fundi. Við fórum ítrekað fram á að ráðuneytið kæmi með raunhæf dæmi um hvernig þessir endurútreikningar kæmu fram. Þetta var fyrir þinglok í desember og kvöldið áður en þingið samþykkti þessi lög var málið tekið úr efnahags- og skattanefnd með mótatkvæðum minni hlutans án þess að nein dæmi hefðu verið lögð fram, en von var á dæmum frá ráðuneytinu. Seint um kvöldið, rétt fyrir miðnætti, kom eitt dæmi og það var um lán sem tekið var 2008 þegar löngu var hætt að veita þessi lán, það hljóðaði upp á eina milljón. Endurútreikningurinn á því var prýðilegur fyrir lántakandann, hækkun krónunnar var sem sagt leiðrétt.

Við Eygló Harðardóttir báðum um eldra dæmi og um húsnæðislán, við fengum þau aldrei. Þau hafa kannski ekki enn þá verið reiknuð út nema bara þau raunverulegu dæmi sem fólk hefur sjálft upplifað.

Umboðsmanni skuldara var falið að hafa eftirlit með þessum lögum og ætlaði að gera úttekt á þessu, bæði á reikniaðferðinni og lagagrundvellinum. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var í morgunútvarpinu á Rás 2, ég heyrði reyndar ekki það viðtal en ég er búin að lesa um það. Þar sagði hún að Háskóli Íslands hafi bara ákveðið að þetta væri í lagi. En það segir ekki alla söguna því að umboðsmaður skuldara leitaði til Reiknistofnunar Háskóla Íslands til að skoða útreikningana og það eina sem þeir staðfestu í þeirri skýrslu var að það væri rétt reiknað. Það var aldrei hlutverk þeirra að skoða lagagrunninn, hvort þetta stæðist.

Hins vegar var leitað til Lagastofnunar Háskóla Íslands en þá var gefinn ákaflega stuttur frestur og Lagastofnun Háskóla Íslands og fleiri aðilar sem leitað var til treystu sér ekki til þess að taka það út á svo stuttum tíma. Því er í raun ekkert lögfræðiálit til um hvort lögin standist stjórnarskrá, Evrópurétt, sem við höfum innleitt, og ýmis mannréttindaákvæði.

Mig langar aðeins að segja frá framkvæmd laganna í reynd. Ég hef verið í sambandi við fjölda fólks sem hefur fengið endurútreikninga og kvartað yfir þeim og ég veit að margir þingmenn hafa fengið bréf frá fjölda manns. Ég hef lagt mig fram um að skoða þessi mál og reyna að skilja þau. Það er alveg ljóst að staða margra neytenda hefur breyst til hins verra með endurútreikningi og sú staða sem blasir við er í engu samræmi við þær skuldbindingar sem neytendur töldu sig hafa tekist á hendur upphaflega. Hér eru nokkur dæmi:

Mánaðarleg greiðslubyrði láns sem hljóðaði upphaflega upp á 29,9 milljónir og var tekið 1. júní 2006, jókst um 128%, sem sagt úr 128.031 kr. á mánuði í 301.121 kr. á mánuði. Slíkt getur ekki undir neinum kringumstæðum talist ásættanlegt. Eins má benda á að umrædd mánaðarleg afborgun að loknum endurútreikningnum er mun hærri en afborganirnar af láninu stökkbreyttu fyrir endurútreikninginn, en þá var lántakanda gert að greiða 245.077 kr. á mánuði af láninu. Þess ber að geta að lántakandinn hefur ekki nýtt sér nein skuldaúrræði í þessu tilfelli sem lántakendum hafa boðist í kjölfar hrunsins frá 2008, heldur hefur hann alltaf greitt þær greiðslur sem fjármálafyrirtækið hefur krafið hann um vegna þessa tiltekna láns. Endurútreiknaður höfuðstóll er 45,2% hærri en sá upphaflegi og stendur nú í 43.416.697 kr.

Annað dæmi er lán frá því í nóvember 2004, sem var upphaflega 26 milljónir en endurútreiknaðir áfallnir vextir eru 30 milljónir, sem sagt hærri en upphaflegur höfuðstóll á þessum sjö árum. Höfuðstóll lánsins er því mun hærri eftir endurútreikninginn en sú fjárhæð sem tekin var upphaflega að láni þótt tæpar 15 milljónir hafi þegar verið greiddar af láninu og vextir af þeirri upphæð komi einnig til frádráttar. Lánið stendur því í 35 millj. kr. eftir útreikning. Endurútreiknaður höfuðstóll er 35% hærri en upphaflegur höfuðstóll þrátt fyrir að greitt hafi verið samviskusamlega af láninu í sjö ár.

Þriðja dæmið er 26 millj. kr. lán sem tekið var í desember 2007. Upphafleg greiðsluáætlun gerði ráð fyrir 151.396 kr. með mánaðarlegri greiðslubyrði. Að endurútreikningi loknum hefur höfuðstóllinn hækkað í rúmlega 31,8 millj. kr. og greiðslubyrðin í rúmar 212 þús. á mánuði þannig að höfuðstólshækkunin þarna er 22,4% en greiðslubyrðin hækkar um 40%.

Það er eins og við séum stödd í happdrætti djöfulsins því að lántakandinn gat með engu móti vitað eða séð fyrir þessar breytingar eða afturvirka lagasetningu sjö árum eftir að hann tók lánið. Við skulum ekki gleyma því að neytendur tóku þessi lán í góðri trú því að þeir höfðu engar forsendur til að vita að þetta væru ólögleg lán. Það höfðu hins vegar fjármálafyrirtækin, eins og lesa má í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja frá því 2001 þegar lögunum var breytt þar sem í raun var varað við þeirri lagasetningu sem þá var sett vegna þess að hún mundi gera gengistryggð lán ólögleg.

Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Ég vona að það nái fram að ganga og ég vona að Alþingi leiðrétti þau mistök sem það hefur gert með þessari lagasetningu, en ég hef svo sem enga trú á því. Ég held að fólk verði að leita dómstóla og það þýði ekki fyrir fólk að bíða og ætlast til þess að einhverjir aðrir geri hlutina fyrir sig, eins og mér hefur stundum fundist fólk gera. Ég fagna frétt um hópmálsókn sem ég las um í dag.