140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[16:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Í sjálfu sér ágætismál. Ég get tekið undir margt af því sem fram kemur í tillögunni um frekari skilgreiningu á starfssviði lögreglunnar og starfsháttum lögreglunnar en nú er, auðvitað með það að markmiði að þjónusta lögreglunnar verði betri og skilvirkari og lögreglan betur í stakk búin til að gegna hlutverki sínu en áður.

Það hefur verið rætt hér um önnur starfsskilyrði lögreglunnar í tengslum við starf hennar með beinum hætti og síðan launakjör og kjaramál í þessari umræðu hér. Víst er að þar er að ýmsu að hyggja. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi hér áðan að núverandi ríkisstjórn væri að mola niður innviði samfélagsins, þar á meðal lögregluna, með þeim aðgerðum og aðferðum sem ríkisstjórnin og stjórnvöld beita við að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er að vísu rangt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að verið væri að beita flötum niðurskurði í ríkisútgjöldum en langur vegur er frá því. Hér hefur alls ekki verið farin sú leið að fara með flatan niðurskurð á alla útgjaldaliði ríkisins, þvert á móti hefur innviðum samfélagsins verið hlíft eins og mögulegt er undan þeim byrðum sem hrunið færði okkur, þá ég við velferðarkerfi, menntakerfi, löggæsluna meðal annars og fleiri slíka sem hafa þurft að taka á sig minni hluta þeirra aðgerða sem við höfum þurft að grípa til. En vissulega hefur ekki verið undan því vikist að allur rekstur ríkisins hefur verið undir að einhverju leyti.

Varðandi kaup og kjör og almenn starfsskilyrði lögreglunnar tek ég undir margt af því sem hér hefur verið sagt og flest af því. Mig langar, virðulegi forseti, að vitna til ummæla þess efnis af hálfu lögreglumanna og fyrrverandi lögreglumanna og þeirra sem málið varðar sem komið hafa fram í fjölmiðlum.

Með leyfi forseta, segir sem dæmi frá aðalfundi Félags yfirlögregluþjóna sem ályktaði svo um kjaramál sín:

„Aðalfundur Félags yfirlögregluþjóna lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu kjaramála lögreglunnar á Íslandi. Skorað er á samninganefnd Landssambands lögreglumanna og ríkisins að ganga í það sem allra fyrst að gera nýjan kjarasamning fyrir lögreglumenn. Ljóst er að eftir því sem dregst að ganga frá viðunandi kjarasamningi má búast við að fleiri lögreglumenn hverfi úr starfi.“

Það er auðvitað raunin. Ef ekki er samið við lögreglumenn eins og aðra þá flýja menn störf, fara eitthvað annað, finna sér betra lífsviðurværi eins og gengur og gerist með okkur öll. Það hefur verið raunin hjá lögreglunni.

Með leyfi forseta segir í Fréttablaðinu:

„Fimm lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sögðu upp störfum í síðustu viku. Þar með hafa 35 lögreglumenn sagt upp það sem af er þessu ári, langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Að auki eru þrettán í launalausu leyfi, sem oftast er undanfari brotthvarfs úr starfi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Við höfum átt fundi, bæði með fulltrúum ráðuneyta dómsmála og fjármála þar sem við höfum lýst áhyggjum af þróun þessara mála og viljað leita leiða til þess að koma í veg fyrir frekara brotthvarf lögreglumanna úr starfi. … Tölur segja okkur að þetta er miklu meira brotthvarf það sem af er þessu ári, en hefur verið á heilum árum þar á undan.“

Áfram er í fréttinni, með leyfi forseta, haft eftir lögreglumanni að þeir hafi „áhyggjur af því að þau markmið sem sett voru síðastliðið haust, með því að fjölga í Lögregluskólanum og fjölga fagmenntuðu fólki í lögreglunni, séu í ákveðnu uppnámi. Eins höfum við áhyggjur af því að hlutfall ófaglærðra á götunni sé að verða of hátt. Þeir vinna að sjálfsögðu ekki sérfræðistörf innan lögreglu, þannig að þeir eru allir við störf á götunni“.

Talsmaður lögreglunnar segir að ástæða uppsagnanna „sé að hluta til lág laun, álag í starfi og almennt góðæri. Lögreglumenn eigi jafnvel möguleika á að fara í önnur og betur launuð störf innan opinbera geirans“. Hann segir: „Okkur er sagt að fleiri en þessir sem þegar hafa sagt upp séu farnir að hugsa sér til hreyfings verði ekki að brugðist við í þessum málum.“

Þetta er grafalvarleg staða sem þarf að bregðast við.

Fyrrverandi lögreglumaður skrifar grein fyrr á þessu ári um stöðuna og segir, með leyfi forseta:

„Með þessum skrifum mínum vil ég fyrst og fremst benda lögreglumönnum á það að grunnlaunin hljóta að skipta öllu máli í komandi kjarabaráttu. Ég vil bara ítreka mína skoðun þess efnis að lögreglumenn eiga ekki að þurfa að treysta á aukavinnu og/eða vaktavinnuálag til þess að tryggja sér viðundandi launakjör.“

Síðan er í þessari grein farið ítarlega yfir starfsskilyrði lögreglunnar með ýmsum hætti sem ætti að vekja okkur til umhugsunar, hvernig þau hafa verið.

Virðulegur forseti. Allar þær tilvitnanir sem ég hef verið að vísa hér í af hálfu lögreglunnar og aðstandenda þeirra, fyrrverandi lögreglumanna og talsmanna lögreglunnar, eru frá árinu 2001–2008, sem segir okkur að ástandið í lögreglunni hefur verið slæmt ansi lengi. Þegar slíku ástandi er síðan fleytt áfram inn í það ástand sem við stöndum í í dag, eftir efnahagslegt hrun, verður erfiðara að bregðast við en margir vildu kjósa að gera, það verður bara að segjast eins og er. Ég þekki engan þingmann, ég þekki engan sem vill ekki hag lögreglunnar sem mestan og bestan eða hefur ekki skilning á hlutverki lögreglunnar í samfélaginu. Það er miklu frekar að staðan í dag sé okkur erfiðari gagnvart því að bregðast við vegna þess efnahagsumhverfis og þess ástands sem við höfum verið að glíma við síðustu þrjú árin. Það er meginástæða þess vanda sem við erum að glíma við. Þær aðstæður voru ekki fyrir hendi á árunum 2001–2008. Samkvæmt blaðaskrifum sem ég vitnaði hér í áðan og samkvæmt viðtölum við talsmenn lögreglunnar, fyrrverandi lögreglumenn og aðstandendur lögreglunnar, var ástandið verst á árunum 2006–2008, það var ekki góð staða. Þá var eitthvað annað að gerast hér í okkar samfélagi, okkar þjóðlífi, þá virtust peningar flæða hér um götur og stræti og nóg vera til af þeim til alls kyns verkefna, en greinilega ekki til lögreglunnar.

Þetta er ég ekki að segja til að gera lítið úr vanda lögreglunnar í dag, það ætla ég ekki að gera, það er langur vegur frá því. Vandi lögreglumanna er mikill. Þeir eiga allt betra skilið en að þeim hefur verið rétt á undanförnum árum. Það er kjarni vandans sem við erum að glíma við í dag. Rétt eins og fyrrverandi lögreglumaður skrifaði um í greininni sem ég vitnaði til hér áðan er það grunnurinn, það eru grunnlaunin, grunnþættir starfsins, sem ekki var sinnt þegar átti að gera það, því er erfiðara að grípa til ráðstafana í dag til að bæta þar úr.

Ég fagna því að lögreglan hefur að þessu sinni í það minnsta eignast nýja liðsmenn í þeirri baráttu sinni að laga starfsumhverfi sitt, bæta það og tryggja, og gæta að hag sínum með sem víðtækustum hætti og ekki síst til að þjóna íbúum þessa lands eins og lögreglan á að gera.