140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram hér að það hefur verið, eins og ég hef skilið afstöðu Alþingis, stefna þingsins að í framtíðinni verði þarna tvö ríki sem geti búið í friði og sátt hvort við hliðina á öðru. Það hefur auðvitað verið markmið kvartettsins, það hefur verið markmið allra þeirra sem hafa komið að friðarviðræðum á þessu svæði að tryggja þá framtíðarsýn.

Ráðherrann hefur hér talað af miklum krafti fyrir því að nú sé rétti tíminn til að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu. Það kann vel að vera, við skulum fara yfir það í utanríkismálanefnd, en mér fannst skorta mjög á að það fylgdi einhver sannfæring fyrir því að friður yxi á svæðinu við þá niðurstöðu. Er það ekki aðalmálið? Er það ekki meginástæða þess að Palestínuríki hefur ekki enn orðið til, það hefur ekki tekist að skapa þennan frið? Er það ekki vegna þess að þessi öfgaöfl sem enn eru í Palestínu — við skulum hafa í huga að í raun og veru eru þessi tvö sjálfstjórnarsvæði hvort undir sinni stjórninni, og Hamas-samtökin hafa verið á lista yfir hryðjuverkasamtök.

Þetta atriði verður að hafa með í þessari umræðu. Eitt er að lýsa yfir sjálfstæði Palestínuríkis, hitt, sem er auðvitað stóra verkefnið, er að skapa frið. Eins og alþjóðasamfélagið hefur nálgast þetta og þeir sem hafa helst beitt sér hafa menn fyrst viljað tryggja friðinn til að lýsa yfir sjálfstæði í framhaldinu. Það komu löng og ítarleg rök frá hæstv. ráðherra fyrir því að nú væri rétti tíminn til að lýsa yfir sjálfstæði ríkisins. En hvar eru rökin fyrir því að það muni hjálpa til við að koma á friði á svæðinu? Og hvenær telur hæstv. ráðherra að þetta geti mögulega orðið miðað við stöðuna eins og hún er í dag? Hvaða afstöðu hefur hann til þeirrar yfirlýsingar sem kvartettinn gaf núna undir lok septembermánaðar á allsherjarþinginu um þau skref sem (Forseti hringir.) þeir sem að honum standa sjá fyrir sér næsta árið?