140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur minnt þann er hér stendur á fortíð Framsóknarflokksins í þessu máli og erum við framsóknarmenn að sjálfsögðu mjög stoltir af þeirri fortíð þegar Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, hitti Yasser Arafat í Túnis 1990. Um þann fund var töluvert mikið fjallað í blöðum og er ég hér með útprentanir af því.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra út í eina setningu í þingsályktunartillögunni. Ég vil taka fram strax í upphafi að það hlýtur að vera markmið okkar allra að Palestína verði sjálfstætt ríki. Við hljótum hins vegar að þurfa að vanda okkur vel í þeirri vegferð. Það getur vel verið að þessi þingsályktun sé til þess fallin að auka líkurnar á því, ég ætla ekkert að segja um það að svo komnu máli.

Í þessari þingsályktun stendur á bls. 3, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að Palestínumenn leiði innri deilumál sín til lykta. Þess er krafist að Hamas-samtökin hætti öllum ofbeldisverkum og viðurkenni rétt Ísraelsríkis til að njóta friðar og öryggis meðal ríkjanna á svæðinu.“

Við erum þar með að segja það og viðurkenna, og opna augu okkar og annarra fyrir því að Hamas-samtökin eru að sjálfsögðu að herja á Ísrael. Ísraelar eru að sjálfsögðu líka að herja á Palestínumenn. Milli þessara aðila er stríð.

Ég velti fyrir mér hvað þessi setning þýði nákvæmlega. Þýðir hún að það sé einhvers konar skilyrði fyrir samþykkt tillögunnar að Hamas-samtökin láti af hernaði, láti af sprengjuárásum á saklausa borgara í Ísrael, líkt og við gerum kröfu um að Ísraelar hætti að drepa saklausa borgara í Palestínu?

Ég segi þetta vegna þess að við stjórnvölinn í Palestínu í dag eru samtök sem eru af mörgum skilgreind sem hryðjuverkasamtök. (Forseti hringir.) Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur (Forseti hringir.) stöðu þeirra.