140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra um að útskýra hlið Ísraelsmanna. Ég var einfaldlega að vekja athygli á þeirri augljósu staðreynd að það hljóta að vera tvær hliðar á þessu máli þegar jafnfá Evrópuríki hafa treyst sér að taka það skref sem ráðherrann mælir hér fyrir, þegar kvartettinn sem hefur leitt helstu skrefin í friðarviðræðunum hefur ekki mælt fyrir því. Mér þótti skorta töluvert á jafnvægi í málflutningi ráðherrans um þau sjónarmið sem menn hljóta að þurfa að taka með í reikninginn í umræðu um þetta mikilvæga og viðkvæma mál.

Það er ekki eins og þetta mál hafi bara gleymst. Fyrir utanaðkomandi mann sem þekkti ekki til hefði það hljómað svo eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra að menn hefðu bara gleymt að gera þetta í tugi ára, þetta væri svo sjálfsagt, það hefði bara fyrirfarist fyrir misskilning eða að menn hefðu verið önnum kafnir í einhverju öðru. Þetta mál er ekki þannig vaxið. Málið er gríðarlega viðkvæmt. Þarna takast sterk öfl á og meginmarkmið allra þeirra sem vilja hafa einhver afskipti af þessu máli hlýtur að vera að taka þau skref sem eru líklegust til að koma á varanlegum friði á svæðinu. Það er það sem mér finnst vera mikilvægast að við gerum. Það er á þeim nótum sem Alþingi hefur fram til þessa ályktað. Það er með þeim hætti sem Ísland beitti sér á sínum tíma við stofnun Ísraelsríkis. Menn töldu það vera rétt skref á þeim tíma. Nú kemur utanríkisráðherrann með þessa tillögu og ég hef áður sagt að mér þyki hún vera þannig vaxin að hana beri að taka alvarlega og ræða á málefnalegan hátt í nefndinni og það mun ég gera.