140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Þór Saari að við höfum óvenju glæsilegan utanríkisráðherra, um það verður ekki deilt og er margbúið að koma því að hér í þingræðum, enda ráðherrann farinn að fara hjá sér, sýnist mér.

Virðulegi forseti. Hér er slegið örlítið á létta strengi sem er í sjálfu sér ágætt þó að málið sé grafalvarlegt. Það er grafalvarlegt vegna þess að við erum að ræða hér í raun framtíð þjóðar og stöðu utanríkismála í heimshluta sem fæst okkar hafa komið til eða hafa einhverja sérþekkingu á. Við fylgjumst hins vegar með, mörg hver, úr fjarlægð og þekkjum söguna, höfum lært hana í sögubókum og svo af fréttum og eigin uppgötvun í rauninni hvernig ástandið hefur verið í þessum heimshluta.

Ég vil taka það fram í upphafi míns máls að þrátt fyrir að ég ætli að velta upp nokkrum spurningum er ég þeirrar skoðunar að Palestína eigi að verða sjálfstætt ríki. Ég vil að það liggi alveg fyrir. Ég hef reyndar þá trú að þingsályktunartillagan, fyrst hún er komin á dagskrá og komin í þingið, verði samþykkt þar að lútandi. Hins vegar er það eðlilega hlutverk utanríkismálanefndar að fara yfir tillöguna, velta fyrir sér hvort orðalag eigi að vera öðruvísi og eitthvað þess háttar og velta upp ýmsum spurningum sem ég ætla að leyfa mér að gera hér. Ég vil þó ítreka að ég er hlynntur því að Palestínuarabar, þjóðin fái sjálfstætt ríki.

Sagt var áðan, ef ég heyrði rétt, að það stefndi í endalok þessa ferlis ef ekki færi að sjást til lands. Það getur örugglega verið rétt að þráðurinn sé orðinn svo stuttur að þetta gangi ekki lengur. En að sama skapi vil ég minnast þeirra orða sem féllu hér áðan, að ég held hjá hæstv. utanríkisráðherra, að það sé óvíst að þessi samþykkt sem slík hafi einhver afgerandi áhrif á hlutina þarna austur frá, þ.e. hún mun örugglega ekki koma á friði ein og sér eða auka stríðsátökin.

Þá ætla ég að velta upp fyrstu spurningunni, sem mér finnst eðlilegt að við spyrjum okkur að: Mun samþykkt sem þessi hafa einhver áhrif á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu? Þá er ég ekki, svo því sé haldið til haga, með neinar sérstakar áhyggjur af blessuðum Bandaríkjamönnunum eða Evrópusambandinu, sem allir vita hversu hrifinn ég er af, ég er að hugsa um þetta almennt, viðskiptalega og allt þetta. Ég vona að menn átti sig á því hvað ég er að fara. Þessu þurfum við að velta fyrir okkur. Það kann hins vegar að vera að það sé þess virði að Íslendingar taki eitthvað á sig, bogni aðeins í baki til þess að létta undir með palestínsku þjóðinni. Það kann að vera vel þess virði, verði það niðurstaðan.

Það kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra áðan að Hamas-samtökin sem væru þarna við stjórnvölinn reyndu stundum að koma skikki á þá bardagaflokka sem þarna eru úti um allt og er það vel ef svo er. Það breytir þó ekki þeirri skoðun minni að mér hefur sýnst að Hamas-samtökin sem slík, og þá er ég ekki að tala um þá aðila innan Palestínu sem hafa viðurkennt Ísraelsríki og viljað ná friði, ég hef ekki séð — og það kann að vera rangt hjá mér og kemur þá vonandi fram á eftir eða í utanríkismálanefnd — að Hamas-samtökin séu eitthvað fýsilegri eða líklegri til að ná friði þarna en Ísraelsmenn og vil ég þá taka enn aftur fram að ég tel að Ísraelsmenn hafi farið fram af afar mikilli grimmd gagnvart þessari þjóð. En auðvitað er málið ekki einfalt. Ef það væri einfalt væri búið að leysa það á þessum 60 árum eða hvað það er, það er alveg ljóst. Við vitum að það eru ýmsir hagsmunir í húfi alveg eins og að ýmsir undarlegir hagsmunir réðu því að vesturveldin gripu til aðgerða í Líbíu en láta ýmislegt fram hjá sér fara í Sádi-Arabíu eða öðrum löndum. Við vitum að það eru ýmsir hagsmunir sem skipta máli. Það sem okkur ber að gera er að reyna að tryggja hagsmuni palestínsku þjóðarinnar og ísraelsku þjóðarinnar, að þessar þjóðir geti lifað í sátt og samlyndi og öryggi. Ég er svo sannarlega tilbúinn að samþykkja ályktun sem þessa ef hún verður til þess. Kannski er hún lóð á vogarskálarnar, ég veit það ekki, en ég vona svo sannarlega að það verði ekki í öfuga átt.

Það stendur í athugasemdum við þingsályktunartillöguna, með leyfi forseta:

„Sérstök áhersla er lögð á þá staðreynd að Frelsishreyfing Palestínumanna og heimastjórn Palestínu (PNA) hafa gefið vopnaða baráttu upp á bátinn, viðurkennt Ísraelsríki og fallist á landamærin frá því fyrir sex daga stríðið 1967 sem framtíðarlandamæri.“

Það er lögð sérstök áhersla á þetta en svo stendur á bls. 3:

„Þess er krafist að Hamas-samtökin hætti öllum ofbeldisverkum og viðurkenni rétt Ísraelsríkis til að njóta friðar og öryggis meðal ríkjanna á svæðinu.“

Mér finnst ákveðin þversögn í þessu. Það er sérstaklega tekið fram að hluti þeirra Palestínumanna sem hafa barist hvað harðast fyrir Palestínu sé búinn að gefa upp á bátinn vopnaða baráttu en síðan er tekið fram að þess sé krafist að Hamas hætti öllum ofbeldisaðgerðum. Auðvitað krefjumst við þess og ég velti því fyrir mér hvort fleiri ríki væru búin að viðurkenna sjálfstæði Palestínu ef Hamas-samtökin hefðu ekki tekið við stjórnvelinum og hagað sér eins og þau haga sér. Ég segi fyrir mig að það mundi létta manni — ekki það að það sé endilega erfitt — að samþykkja ályktun sem þessa. Þetta er eitt af því sem við þurfum að sjálfsögðu að skoða.

Saga okkar Íslendinga hvað það varðar að hjálpa þjóðum sem vilja öðlast sjálfstæði er vel þekkt og er gerð grein ágætlega fyrir í þessari þingsályktunartillögu og það kann að vera að það sé sanngjarn samanburður. Ég hef áhyggjur af því, þó að það sé alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að á margan hátt eru Palestínumenn tilbúnir til þess að verða sjálfstætt ríki og hafa sjálfsagt verið það í mörg, mörg ár, að vandinn heima fyrir sé engu að síður sá að þar séu ólíkir hópar, stríðandi fylkingar jafnvel, hryðjuverkasamtök sem vilja kannski ekki ná friði, vilja kannski halda þessu svona í þeim heljargreipum sem þarna eru. Við hljótum að gera þá kröfu til Palestínumanna að þeir klári þessa hluti heima fyrir.

Við gagnrýnum Ísraelsmenn réttilega hvernig þeir ganga fram en mér finnst að við megum ekki gleyma því að það er líku saman að jafna með hluta Palestínumanna og þeirra sem eru við stjórnvölinn þar núna. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert sjálfsagt að þessu liði sé rétt hjálparhönd en það á ekki að verða til þess að við komum ekki restinni af þjóðinni til hjálpar.

Málið er mjög flókið, herra forseti. Ég er svolítið að slá úr og í eins og heyrist á þessari ræðu minni en það er vegna þess að mér finnst vert að velta upp ýmsum spurningum. Ef það væri þannig að við ættum engra kosta völ í þinginu að ræða hlutina heldur yrðum að samþykkja þessa tillögu eins og hún liggur fyrir núna með því að ýta á atkvæðatakkann mundi ég samþykkja þessa tillögu, það er alveg ljóst. En ég held að við þurfum, af því að við höfum þetta ferli innan þingsins, að fá svör við þeim spurningum sem við höfum velt upp.

Þá kemur að lokavangaveltum mínum í þessu máli og þær eru: Eigum við að samþykkja þessa tillögu út frá tilfinningum eða eigum við að samþykkja hana út frá rökum? Það er mjög auðvelt að samþykkja hana út frá tilfinningum, það er mjög auðvelt, en í utanríkismálanefnd munum við þurfa að velta fyrir okkur rökum með og á móti og ég vona svo sannarlega og hygg að þau verði fleiri, miklu fleiri með, ég hef trú á því, en við verðum að taka umræðu um allar þessar tillögur.

Saga Framsóknarflokksins í máli þessu, eins og hér hefur áður komið fram, er vitanlega glæsileg. Fyrrverandi forsætisráðherra braut 1990 í rauninni ísinn fyrir Íslendinga að einhverju leyti þegar hann heimsótti Mubarak og Arafat á heimaslóðum þeirra, þó vitanlega ekki í ríki Palestínu heldur í Egyptalandi og Túnis, og það hefur vitanlega alltaf verið á stefnuskrá Íslendinga að viðurkenna ríki Palestínumanna. Ég vona að við verðum í aðstöðu til að gera það en ég ítreka hér að við þurfum hins vegar að gefa okkur tíma eða veita okkur þann munað að velta öllum hlutum upp í þessu máli burt séð (Forseti hringir.) frá tilfinningum okkar.