140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég eins og hv. þingmaður er tilfinningavera og ég get ekki leynt því að það fór um mig gleðibylgja þegar hann sagði að ef hann þyrfti að ýta á hnapp núna, já eða nei, mundi hann ýta á já. Það er mikilvæg yfirlýsing. Mér er mest í mun að mál af þessu tagi hafi sem breiðasta samstöðu. Ef einhverjir komast að þeirri niðurstöðu að þeir geti ekki stutt þessa tillögu verða þeir auðvitað að skýra það með rökum. Hv. þingmaður hefur velt upp mörgum spurningum sem allar eru fullkomlega eðlilegar.

Menn hafa dvalið nokkuð við Hamas. Ég hef sagt hér: Sá farvegur sem Palestínumenn vilja setja málið í og undirrituðu samkomulag um milli Fatah og Hamas í maí felur í sér að búin verður til bráðabirgðastjórn sem undirbýr og framkvæmir kosningar og þá kemur ríkisstjórn yfir Palestínu. Palestínumenn hafa a.m.k. sagt við mig og örugglega opinberlega að þeir vilji ekki byggja upp her, þeir hafa öryggissveitir. Þeir segja: Það þarf að koma á friði innan Palestínu. Þeir hafa tillögur um það. Þær mundu kannski ekki hugnast öllum í þessum sal en þeir hafa t.d. sagt: Við viljum fá NATO til þess. Ég er ekkert viss um að NATO vilji það og kannski eru einhverjir hér og jafnvel í íslensku ríkisstjórninni sem ekki yrðu glaðir yfir því.

Varðandi áhrif á stöðu Íslands þá var það merkileg spurning. Það var líka rannsakað af okkur. Við komumst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega rannsókn í utanríkisráðuneytinu að það væri mjög ólíklegt að þetta hefði nokkrar neikvæðar afleiðingar á viðskipti eða sambönd okkar við önnur ríki. Það er allt í lagi að segja frá því hér, „for what it's worth“, með leyfi forseta, að það er hellingur af utanríkisráðherrum sem hvetja Ísland áfram óformlega í einkasamtölum. Mörg þeirra eru innan hins stóra kaupfélags sem við stundum höfum rætt um, ég og hv. þingmaður.