140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýmis samtök hafa vissulega getað horfið frá villu síns vegar og jafnvel ríkjasambönd ef þeim er beint á rétta braut.

Í Morgunblaðinu 15. maí 1990 segir, með leyfi forseta:

„Mubarak forseti sagði reyndar að Arafat gæti helst haldið aftur af ýmsum öfgaöflum í röðum araba, sem Arafat lagði áherslu á að væru utan PLO.“

Þetta er 1990. Þetta er tilvitnun í Steingrím Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, sem hér hefur verið nefndur eftir að hafa farið fyrstur vestrænna leiðtoga til þess að hitta Arafat.

Vandinn heima fyrir í Palestínu er vitanlega ekkert nýr. Við sjáum það á þessu og þekkjum það af sögunni. Við verðum hins vegar að skoða heildarmyndina og velta því fyrir okkur hvort við getum látið tilfinningar ráða för eða rök. Ég hef reyndar trú á að hvort tveggja muni reynast Palestínumönnum í vil þegar við erum búin að fara yfir þetta mál. Ég held það í alvöru. Þá munum við vonandi sem flest geta staðið að ályktun sem þessari. Það er held ég óheppilegt ef við getum það ekki. Ég held að eðlilegt sé að fara yfir þessa þingsályktunartillögu í utanríkismálanefnd, eins og ég veit að verður gert, og mönnum gefið færi á að spyrja hugsanlega einhverja sérfræðinga út úr og þess háttar. Þar með er ég ekki að kasta neinni rýrð á orð hæstv. utanríkisráðherra um að búið sé að skoða þessi mál mjög vandlega og kanna hvaða áhrif þetta hafi.

Ég óttast ekki að einhverjir beiti okkur þvingunum, við þekkjum það vel úr umræðunni um Icesave að Íslendingar geta vel staðið af sér þvinganir.