140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka forustu hæstv. utanríkisráðherra þá tillögu sem hér er komin fram og ríkisstjórninni fyrir að samþykkja að leggja hana fram. Ég vil líka þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar ræddi hann meðal annars þá tillögu sem hér er komin til umræðu á Alþingi sem eitt af fyrstu málum ríkisstjórnarinnar.

Það er hollt að fara yfir söguna vegna þess að við Íslendingar getum litið um farinn veg og verið ákaflega stolt af frumkvæði okkar, þessi litla þjóð. Við gætum byrjað á því að fara aftur til 1948, til forustu sendiherra okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, Thors Thors, í því sem þar var gert þegar Ísraelsmenn fengu samþykkta stofnun sjálfstæðs ríkis. Margir aðilar hafa fjallað um það og leiðtogar Ísraels, Golda Meir og Ben Gurion, hafa komið hingað til Íslands til að þakka fyrir það. Það hefur líka verið gaman að lesa sögu Abba Ebans, sem var utanríkisráðherra í Ísrael, þar sem hann lýsir því þegar hann á þessum dögum hélt að þetta væri að falla hjá Sameinuðu þjóðunum. Thor Thors stýrði þá nefnd sem fjallaði um sjálfstæði Palestínu og Ísraels og leiddi það mál til lykta með magnþrunginni ræðu, að því er maður hefur lesið, þar sem hann talaði fyrir þessu.

Það var þá, virðulegi forseti, að Ísraelsmenn fengu sjálfstæði. Nú 62 árum síðar stöndum við hér á Alþingi Íslendinga og ræðum þessa þingsályktunartillögu um sjálfstæði og fullveldi Palestínu sem átti að fylgja með samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 1948, en aðeins annar aðilinn fékk. Því máli lauk svo með atkvæðagreiðslu þar sem 33 ríki, ef ég man rétt, sögðu já, 13 sátu hjá og 10 voru á móti eða öfugt. En aðalatriðið er að þetta var frumkvæði sem mikið hefur verið talað um, frumkvæði Íslendinga, sendiherrans okkar, sem við getum verið ákaflega stolt af. Við getum því líka verið stolt af því að þessi tillaga er komin fram og af þeirri ræðu sem hæstv. utanríkisráðherra flutti á þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann lýsti því yfir að leitað yrði samþykkis Alþingis fyrir því að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um leið og ég þakka þeim sem hafa lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við þessa tillögu, bæði fulltrúum Framsóknarflokksins, sem hér hafa talað, þótt þeir hafi fyrirvara um vinnu utanríkismálanefndar, og formanni Sjálfstæðisflokksins, sem talaði um að þarna ættu að vera tvö ríki í sátt í framtíðinni. Ég held að sú framtíð sé komin, ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða. Menn velta því fyrir sér hvort þetta muni spilla fyrir. Ég segi: Nei, örugglega ekki, þetta mun ekki spilla fyrir friði. Ég hygg að þetta muni auka líkur á friði. Ætli sú kúgun sem þessi þjóð hefur mátt búa við sé ekki undirrótin að þeim ófriði sem þarna er, því sem rætt hefur verið um hér, hryðjuverkum Hamas og annarra. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti hér ágætlega áðan heimsókn sinni til Palestínu og á Gaza-svæðið, þar sem sjómenn komast ekki einu sinni á sjó.

Virðulegi forseti. Ég er þess fullviss að samþykkt þessarar tillögu og afdráttarlaus afstaða Íslendinga, um að styðja sjálfstæði og fullveldi Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, mun auka frið á þessu svæði.

Það er svo að við Íslendingar, eins og ég gat um hér með Ísrael fyrir 62 árum, fullveldið sem þeir fengu, getum nefnt ýmislegt annað í þessu sambandi. Við vorum fyrstir þjóða árið 1991, undir traustri forustu þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþýðuflokksins, að styðja sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Og hér hefur líka verið minnst á Svartfellinga og Króata sem við vorum fyrst þjóða til að viðurkenna.

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari hæstv. utanríkisráðherra hér áðan fór hann yfir það hvers vegna aðrar þjóðir ganga ekki eins hraustlega fram og við gerum og það er auðvitað hárrétt sem hann sagði, væntanlegar forsetakosningar í Bandaríkjunum ráða þar miklu. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti þess vegna fram efasemdir um hvort við ættum að stíga þetta skref: Hann spurði: Hvað gera aðrar þjóðir? Og þá er það þannig að litla Ísland lætur ekkert segja sér fyrir verkum hvað það varðar, ef við ætlum að ganga þessa leið göngum við hana. Við látum hvorki stórþjóðir né aðra hóta okkur einhverju hvað það varðar. Sú ferilskrá Íslendinga, sem ég hef gert hér að umtalsefni, í sambandi við sjálfstæði Ísraels og viðurkenningu á Eystrasaltslöndunum, í sambandi við sjálfstæði Svartfellinga og Króata, er á þann veg að við erum ákaflega stolt af. Við munum líka verða stolt þegar við verðum búin að samþykkja þessa tillögu.

Virðulegi forseti. Við höfum fylgst af aðdáun með arabíska vorinu, þar sem ekki síst ungt fólk og jafnvel konur, sem maður kannski sér ekki oft í mótmælum í þessum heimshluta, hafa risið upp og gert réttmætar kröfur um aukin mannréttindi, mannúðlegra samfélag og félagsleg réttindi. Þetta fólk er að kalla á það sem okkur finnst sjálfsagt, á það sem við höfum búið við hér. Ég hygg að jafnvel sé til ungt fólk í dag sem heldur að öll þessi félagslegu réttindi og mannréttindi sem við njótum hafi jafnvel dottið af himnum ofan. En þetta fólk berst jafnvel með vopnum fyrir því að fá þessi réttindi sem við teljum svo sjálfsögð.

Ef til vill er það vegna samskiptamiðlanna, SMS, Facebook o.s.frv., að andófið er jafnöflugt í þessum ríkjum og raun ber vitni, það er þá gott að þeir urðu til ef þeir hafa hvatt til þess sem þarna er að gerast. Við höfum horft á harðstjóra falla. Við getum nefnt Egyptaland, við getum nefnt Líbíu og við getum nefnt þá baráttu sem stendur yfir í Sýrlandi. Frá Sýrlandi berast okkur viðbjóðslegar fréttir um að hernum sé beitt gegn fólki sem kallar eftir sjálfsögðum mannréttindum, félagslegum réttindum og mannúðlegum samfélögum, og þar er jafnvel keyrt yfir fólk. Það var því hryggilegt að öryggisráðið skyldi beita neitunarvaldi, að Rússar og Kínverjar skyldu beita neitunarvaldi þegar til stóð að fordæma það ofbeldi sem á sér stað í Sýrlandi um þessar mundir.

Virðulegi forseti. Þetta er kannski lýsingin á því sem er að gerast og getur gerst og nokkrir hafa gert hér að umtalsefni: Hvað gerist ef við göngum þessa leið? Ég tek það skýrt fram að ég er algjörlega sammála túlkun hæstv. utanríkisráðherra hér áðan á því hvers vegna ýmsar stórþjóðir þora ekki að ganga fram jafnkröftuglega og mynduglega og við gerum nú. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt að átta þjóðir væru búnar að lýsa þessu yfir á vettvangi Evrópusambandsins og vonandi koma fleiri þar á eftir.

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ákaflega athyglisverð umræða sem hér hefur orðið. Ég treysti því 100% að hin ágæta utanríkismálanefnd, undir forustu sáttasemjarans hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem stýrir þeirri nefnd, noti tímann til að komast að niðurstöðu á þann veg að Alþingi Íslendinga geti myndað órjúfanlega samstöðu allra fulltrúa í því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Ég hvet utanríkismálanefnd til góðra verka hvað það varðar, ég hvet hana til að leggja mikið á sig. En ég hvet hana líka til þess að taka ekki allt of langan tíma í það. Um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu spyr ég því hæstv. utanríkisráðherra — ég veit að hann ætlar að loka þessari umræðu — hvort einhver tímapressa sé hvað varðar atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum, hvenær við þurfum að vera búin að afgreiða þetta og hvort hægt sé að liðka fyrir því.