140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

lög um ólögmæti gengistryggðra lána.

[13:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég kem upp til að bera það undir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann telji koma til greina að endurmeta þá lagasetningu sem fór í gegnum þingið í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðu lánanna þar sem smám saman hefur komið í ljós að sá útreikningur sem framkvæmdur hefur verið á grundvelli laganna leiðir til þeirrar afturvirkni að þeir sem höfðu staðið í fullum skilum þurfa nú að sæta eins konar endurálagningu á höfuðstólsgreiðslum og vaxtagreiðslum. Allt eru þetta hlutir sem við fengum tilefni til að gæta betur að í þinginu á sínum tíma. Annars vegar komu fram athugasemdir um að skoða þyrfti málið betur út frá eignarréttarlegum atriðum, þ.e. hvað eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar varðar, og hins vegar athugasemdir sem lutu að neytendahlið þessara mála, þ.e. að neytendur ættu ekki að þurfa að sæta því að fjármálastofnanir sem hefðu gengið svona fram gætu bætt stöðu sína með gildistöku laganna.

Nú er komið í ljós að til þess að ná fram rétti sínum hyggjast margir neytendur safna saman í hópmálsókn til að fá löggjöfinni hnekkt. Það er út af fyrir sig alvarleg staða ef þingið hefur sett neytendur í þá stöðu að þeir þurfi að höfða sérstakt dómsmál til að leita réttar síns vegna laga sem héðan stafa. Umræðan undanfarna daga um að hér hafi verið sett mikil ólög hlýtur að gefa okkur tilefni til að ræða málið í þingsal og þess vegna ber ég það undir hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki komið fram tilefni til að endurmeta þessa löggjöf.