140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fjárframlög utan fjárlagafrumvarpsins.

[13:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að almennt hafi tekist að bæta verulega umgjörðina um fjárlagagerðina og framkvæmd fjárlaga. Það hefur dregið úr þeim liðum sem hefðbundið voru áður mjög stórir, t.d. um bæði niðurfelldar ónýttar heimildir og yfirfærðar heimildir. Þær tölur lækka núna milli ára vegna þess að við höfum náð betur utan um þær, t.d. með skýru regluverki um það hvað megi færa yfir af ónýttum heimildum, 4% innan árs og síðan hámark 10% uppsafnað á ákveðnu árabili. Regluverk af þessu tagi hjálpar til við að hafa þetta í föstum skorðum.

Það er aldrei hægt að útiloka að upp komi mál sem þarf að bregðast við. Þær aðstæður geta komið upp að ófyrirséð útgjöld eða ófyrirséðar tekjur komi inn og þá verða þær teknar með. Við þekkjum dæmin eins og frá síðasta ári þegar hinn mikli fjárhagsvandi Íbúðalánasjóðs kom í ljós og menn urðu að takast á við hann með tiltölulega skömmum fyrirvara. Eins geta enn átt eftir að koma einhver áföll sem tengjast endurreisn (Forseti hringir.) fjármálakerfisins, það er ekki hægt að útiloka það. Það er þekkt áhættumál eins og hvaða vendingu ríkið kemur til (Forseti hringir.) með að þurfa að leggja í vegna Sparisjóðs Keflavíkur.