140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

úttekt á samfélagslegum áhrifum kvótakerfisins.

[13:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt var það eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar að skipa sérstaka nefnd til að fara yfir þau álitaefni sem eru í fiskveiðistjórnarmálunum og þau atriði sem þyrfti að fara að taka upp varðandi endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Sú nefnd fékk þar viðamikið umboð til að taka saman marga þætti sem að þessu lutu undir forustu núverandi velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar. Þar er líka allmikið gagnasafn um þessi mál.

Varðandi síðan álit sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem hv. þingmaður vék að um að gera sérstaka úttekt á þeim atriðum sem hv. þingmaður nefndi til þá var það mat ráðuneytisins að rétt væri að fara yfir þau gögn sem um þetta hafa verið unnin og sneru menn sér til Byggðastofnunar til að taka saman þær skýrslur, athuganir og rannsóknir sem þar hafa verið gerðar og fá mat á það hvað þyrfti frekar til til að leggja mat á þessa hluti umfram það sem áður var og hægt er.

Þessi skýrslusöfnun er í gangi og þessi vinna er í gangi. Búið er að vinna allítarlegan lista og úttekt á þeirri vinnu og skýrslum sem þegar hafa verið gefnar út á þessum vettvangi og í framhaldi af því verður lagt mat á hvort það þurfi frekar að gera.

Eins og hv. þingmaður vék réttilega að í ræðu sinni (Forseti hringir.) eru þetta mjög umfangsmikil atriði sem þarna voru nefnd til og mörg þeirra geta hafa átt sér hinar (Forseti hringir.) ýmsu forsendur.