140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fækkun sparisjóða.

[13:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í þetta skipti ætla ég ekki að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um sjávarútvegsmál og í þetta skipti ætla ég ekki heldur að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um landbúnaðarmál. Ég ætla að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni sparisjóða.

Ástæðan er einfaldlega sú að hæstv. ráðherra var á árum áður mikill talsmaður sparisjóðafyrirkomulagsins og að viðhalda öflugu sparisjóðakerfi í landinu. Hæstv. ráðherra flutti á sínum tíma frumvarp varðandi málefni sparisjóðanna og þar segir svo m.a. í greinargerð, með leyfi virðulegs forseta:

„Sparisjóðirnir eiga áfram að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og því er mikilvægt að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll.“ — Og síðar, með leyfi forseta: „Frumvarp þetta er lagt fram til þess að standa vörð um grunnstoðir sparisjóðanna sem starfa á hugsjónagrunni og njóta verðmætrar ímyndar og trúnaðar meðal fólksins í landinu.“

Hvað hefur verið að gerast? Frá því í fyrra hefur þjónustustöðvum sparisjóðanna í landinu fækkað um helming, úr 47 í 23. Það er þannig að það starfar enginn sparisjóður núna á höfuðborgarsvæðinu, enginn á Reykjanesi þar sem þeir voru sex fyrir ári síðan, enginn á Vesturlandi, enginn á vestanverðum Vestfjörðum utan Bolungarvíkur og Suðureyrar. Þetta er þróunin.

Það er alveg greinilegt að hugmyndin er sú að halda síðan áfram á þessari braut. Nú þegar eru tveir sparisjóðir í sölumeðferð. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessarar þróunar? Hefur hæstv. ráðherra tekið þessi mál upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar, telur hæstv. ráðherra að þessari þróun eigi að snúa við og er hægt að snúa henni við eða stöðva hana þar sem hún er þó komin núna?