140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðuleg forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Mikið er talað um að hér sé einhver pólitísk óvissa í atvinnumálum og ekkert að gerast á orkusviðinu. Ég held ég standi hér í fjórða skiptið og fari yfir hvað er í gangi á orkusviðinu. Í gangi eru fjórar framkvæmdir sem eru að skila okkur framleiðslugetu hálfrar Kárahnjúkavirkjunar. Það er í gangi, virðulegi forseti. Þannig að sá málflutningur dæmir sig sjálfur.

Ég held ég geti fullyrt að aldrei nokkurn tímann hafi farið fram jafnmikil vinna eins og hjá þessari ríkisstjórn við að gera áætlanir í orkumálum til framtíðar litið og mun ég fara yfir það í minni tölu.

Í sumar kynnti Landsvirkjun mjög góða skýrslu þar sem kynntar eru sviðsmyndir um mögulega stöðu fyrirtækisins á árunum 2025–2035. Þar er fjallað um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035 og um mögulegar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Þar er líka fjallað um möguleika á lagningu sæstrengs sem er afar áhugaverð hugmynd, breytingar á rekstri Landsvirkjunar vegna framkvæmda og áhrifin af starfsemi fyrirtækisins á rekstur og efnahag hins opinbera og hagkerfisins í heild. Í skýrslunni eru skoðaðar fjórar sviðsmyndir, bæði með og án frekari framkvæmda, svo og áhrif óbreytts raforkuverðs og hins vegar hækkana á raforkuverði í samræmi við væntingar Landsvirkjunar.

Hv. þingmaður horfði aðallega á fyrstu sviðsmyndina sem snýr að framkvæmdaáætluninni. Í skýrslunni kemur fram að áætlunin byggir á þeim forsendum sem fram koma í þeirri tillögu að rammaáætlun sem nú er í opnu ferli og á eftir að koma inn í þingið til umfjöllunar, vonandi fyrir jól. En til þess að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki geti tekið fullan þátt í uppbyggingu efnahagslífsins hér á landi á næstu árum þurfa stjórnvöld og Alþingi að taka á ákveðnum lykilþáttum. Í fyrsta lagi þarf að ljúka gerð rammaáætlunar. Skapa þarf þær mikilvægu forsendur sem þar er að finna og hið mikilvæga jafnvægi á milli verndar og nýtingar. Þar erum við í fyrsta skipti komin með tæki fyrir orkufyrirtækin í landinu til að gera áætlanir til lengri tíma vegna þess að þá liggur fyrir hvaða kostir hafa farið inn í nýtingarflokk.

Virðulegi forseti. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir líka mjög miklu að í kjölfar bankahrunsins var ákveðið að taka upp samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um framkvæmd efnahagsstefnu. Þetta samstarf hefur gefist það vel að trúverðugleiki íslensks efnahagslífs hefur aukist til muna. Við tökum t.d. eftir því að fyrir fáum dögum gekk Landsvirkjun frá lánasamningi við þýskan banka. Slíkt hefði verið mjög erfitt og jafnvel óhugsandi fyrir nokkrum missirum síðan. Staðföst stefna ríkisstjórnarinnar við að fylgja efnahagsáætluninni eftir hefur því haft mjög jákvæð áhrif á möguleika Landsvirkjunar til fjármögnunar, sem er auðvitað forsenda framkvæmda.

Þá skiptir máli að ríkisvaldið marki skýra stefnu í erlendum fjárfestingum til að styðja við orkufyrirtækin og búa til samkeppni um kaupin á orkunni sjálfri. Það hefur ríkisstjórnin sannarlega gert, t.d. með því að klára, ásamt Alþingi öllu að sjálfsögðu, lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Þau skipta gríðarlega miklu máli og eru þegar að skila því að komin er samkeppni um raforkuna eins og við sjáum t.d. á Norðausturlandi þar sem framkvæmdir munu fara af stað strax á næsta ári.

Annað atriði sem við þurfum líka að fara í gegnum eru línulagnirnar. Mikil umræða hefur verið um þær undanfarið og fyrir tveimur árum lagði hv. þm. Helgi Hjörvar fram tillögu til þingsályktunar um að setja af stað vinnu við að bera saman kostnað við byggingu loftlína og jarðstrengja. Ég held að það þurfi líka að horfa á það í hinu stóra samhengi.

Virðulegi forseti. Hér hafa menn, eins og ég fór yfir í upphafi tölu minnar, bæði verið að grípa gæsina með því að halda framkvæmdum á orkusviðinu áfram en líka með því að gera mikilvægar áætlanir til lengri tíma. Við erum að skýra framtíðarsýnina. Við erum að ljúka við gerð rammaáætlunar sem beðið hefur verið eftir lengi og mun gjörbreyta öllum forsendum til orkunýtingar til lengri tíma þannig að menn geti farið að gera raunverulegar áætlanir. Við komum okkur út úr hinni tilviljanakenndu ákvarðanatöku í orkumálum sem við höfum búið við allt of lengi og hefur skapað mikla gjá milli landshluta og hefur líka, má segja, klofið þjóðina allt of oft. Við ætlum út úr því kerfi og inn í skýra framtíðarsýn þar sem við höfum stefnu til lengri tíma að leiðarljósi.