140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni að vekja máls á málefnum Landsvirkjunar og þeirra efnahagslegu áhrifa sem það fyrirtæki glæðir íslenskt efnahagslíf og þakka hæstv. ráðherra einnig svörin. Það dylst engum að fyrirstaða er hjá stjórnvöldum, innan ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að því að virkja ákveðnar orkuauðlindir. Í tvö og hálft ár höfum við upplifað að stjórnvöld hafa jafnvel lagt stein í götu mikilvægra verkefna sem gætu, eins og fram hefur komið, fjölgað ársstörfum um allt að 2 þúsund og aukið hagvöxt um 2%. Er að undra að við skulum ræða um svo mikilvægar framkvæmdir þegar 13 þúsund Íslendingar eru án atvinnu? Þess vegna verður ríkisstjórnin að fara að svara því hvort hún ætli sér að styðja við að slíkum verkefnum verði hleypt af stokkunum eða hvort halda eigi áfram að berjast gegn slíkri atvinnustarfsemi.

Af því að við ræðum hér um efnahagsleg áhrif held ég að ágætt sé að rifja upp hverju sú framkvæmd sem Kárahnjúkavirkjun var, og Framsóknarflokkurinn barðist mjög fyrir á sínum tíma, hefur skilað. Hún hefur skilað sér í því að 500 manns vinna við álver Alcoa á Reyðarfirði. Að auki vinna 300 manns á hafnarsvæðinu. Þetta eru 800 störf á Íslandi í dag. Með afleiddum störfum má færa rök fyrir því að framkvæmdin hafi skilað 1.500 störfum á Austurlandi. Það er ekkert smáræði. Í raun og veru má segja að sá fjórðungur væri svipur hjá sjón ef ekki hefði verið fyrir þessa framkvæmd. Það felast því gríðarleg tækifæri í því að virkja náttúruauðlindir okkar, að sjálfsögðu með skynsamlegum hætti, en þegar slíkar öfgar eru við stjórnvölinn, eins og til að mynda stjórnmálaflokkur eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er ekki að vænta að mikið verði um framkvæmdir á þessu sviði, enda var sá flokkur stofnaður í kringum þá (Forseti hringir.) hugsjón að koma í veg fyrir slíkar framkvæmdir.