140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég held nú að flest í þessari umræðu mundi skýrast ef menn settust bara niður og læsu frábæra skýrslu sem heitir Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til 2035. Ég get samt ekki snúið mér að því að lesa upp úr þeirri skýrslu, eins og þessi umræða virðist eiga að snúast um, heldur verð ég að mótmæla svartsýnis- og svartagallsrausinu sem stóð hér upp úr öðrum þingmanni Norðausturlands, Birki Jóni Jónssyni. Og þegar hann heldur því fram að Kárahnjúkavirkjun hafi skapað 1.500 störf, langar mig til að benda þessum unga þingmanni á að í kvikmyndagerð eru 750 ársverk (Gripið fram í: Styð þig í því.) og kostnaður ríkisins og stuðningur við kvikmyndagerð er einn þúsundasti partur af kostnaðinum við Kárahnjúkavirkjun og engin náttúruspjöll — gáum að því.

Ég ætla aðeins að víkja að því að sú niðursveifla í hagvexti sem hér hefur verið síðustu tvo áratugi hófst um 1990, rétt um það leyti sem Sjálfstæðisflokkurinn tók við völdum. Síðan kom bóla 2006–2008, sú bóla sprakk eins og við vitum og nú sitjum við uppi með afleiðingar þess, en eins og segir í þessari skýrslu sem ég vitnaði til, með leyfi forseta:

„En í bólum vaxa ákveðnir atvinnugeirar, svo sem byggingariðnaður og fjármálaþjónusta, gríðarlega hratt með mannaráðningum og fjárfestingum. Þessir vöxtur verður síðan að ganga til baka (Forseti hringir.) með uppsögnum og afskriftum sem eru ávallt kostnaðarsamar fyrir efnahagslífið í heild sinni.“