140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég skildi ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar þannig að hann hefði einmitt verið að vekja athygli á þeim fyrirætlunum sem Landsvirkjun, þetta fyrirtæki sem er í eigu ríkisins, hefur lagt fram um hvernig beri að nýta með sem bestum hætti þær orkuauðlindir sem við höfum aðgang að. Þar með vísa ég á bug þeim orðum sem hér hafa fallið um að í því felist einhvers konar æðibunugangur.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því andvaraleysi sem mér finnst ég heyra stundum í umræðum í þessum sal. Þannig er, frú forseti, að fjárlagafrumvarpið sem lagt var fyrir þingið fyrir skömmu síðan, var byggt á hagvaxtarspá fyrir næsta ár upp á 3,1%. Skömmu síðar kemur hagvaxtarspá frá Seðlabankanum þar sem hún var lækkuð niður um helming. Hagvaxtarspáin fyrir næsta ár, árið 2012, er 1,6%. Það er um það bil sá hagvöxtur sem þarf til að taka á móti nýju fólki inn á vinnumarkaðinn. Ef sú spá gengur eftir náum við ekkert að vinna á atvinnuleysinu sem svo mjög þjakar okkur. Þá náum við engum árangri með ríkissjóðinn. Þá mun áfram stafa meiri og meiri hætta af velferðarkerfinu á Íslandi.

Þess vegna er ástæða til að leita allra mögulegra leiða til að snúa þeirri þróun við, auðvitað á þeim grunni að við förum sem best með auðlindirnar, og náum góðri sátt á milli nýtingar og verndunar. Þess vegna er rétt að inna hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn eftir því hvort hún er tilbúin að lýsa því yfir að allt kapp verði lagt á að vinna eftir því plani sem Landsvirkjun hefur lagt sjálf fram og hv. þingmenn hafa einmitt keppst um að mæra. Hver er ástæðan? Jú, ein ástæðan er sú að við þekkjum það í þessum sal hvaða átök hafa verið, m.a. um þá virkjunarkosti sem eru (Forseti hringir.) einmitt í rammaáætlun um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Við þekkjum þá umræðu. Það þýðir ekki að reyna að fela hana, frú forseti.