140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hv. þm. Jón Gunnarsson hafði frumkvæði að hér í dag og ég hélt satt að segja að ætti að snúast um skýrslu sem fjallar um efnahagsleg áhrif á rekstur og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035, sem er að mörgu leyti ágæt skýrsla og margt sem má af henni læra, bæði af því sem þegar hefur verið gert og ekki síður um þá framtíðarsýn sem kemur fram í skýrslunni sem unnin er fyrir Landsvirkjun.

Ég vil vitna í ákveðin ummæli í kafla sem heitir „Möguleg áhrif arðgreiðslna á íslenskt þjóðarbú“ í skýrslunni þar sem sagt er frá því að núvirt hagvaxtaráhrif álversins á Reyðarfirði frá fyrsta starfsdegi til framtíðar geti hugsanlega verið um 1%. Með leyfi forseta, segir í þessum kafla:

„Áhrifin á hvert ár eru því verulega lítil í þjóðhagslegu tilliti. Ástæðan er ósköp einföld. Þrátt fyrir stærðina nota álver lítið af innlendum framleiðsluþáttum fyrir utan raforku. Og þar sem sú stefna hefur lengi verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði, sem m.a. endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi LV […]. Arðsemin verður að teljast lág í ljósi þess að að baki rekstrinum liggja orkuauðlindir landsins sem felast í beisluðum fallvötnum. Séu þessar náttúruauðlindir raunverulegar auðlindir fyrir landið ætti það að endurspeglast í hárri arðsemi fyrirtækisins og arðgreiðslum.“

Áfram segir, með leyfi forseta, í skýrslunni að það liggi fyrir að meðalkostnaður í orkuframleiðslu á Íslandi sé lægri en þekkist í Evrópu. Í niðurlagsorðum í þessum kafla í annars ágætri skýrslu segir svo, með leyfi forseta:

„Umræða um virkjanir og auðlindir á Íslandi ætti að snúast um þennan kjarna málsins ef markmiðið er yfir höfuð að auka efnahagslega velsæld Íslands. Þess vegna er lykilatriði að tryggja sem besta arðsemi LV heldur en nokkurn annan hlut.“

Auðvitað geta allir tekið undir þetta. Þetta er mikilvægasti hluti málsins eins og reyndar kemur fram (Forseti hringir.) í skýrslu Landsvirkjunar (Forseti hringir.) frá haustinu 2010 þar sem þessi sjónarmið eru margítrekuð og má segja að þar hafi orðið stefnubreyting (Forseti hringir.) bæði í …