140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að tjá sig hérna aðeins um þessa merku skýrslu frá Landsvirkjun og ber að þakka málshefjanda fyrir það að koma þessari umræðu á dagskrá. Mér finnst þetta afskaplega góð skýrsla. Maður fyllist eiginlega von um að loksins séu komnir hér nýir tímar þar sem hún endurspeglar ánægjulega breytingu á starfsháttum Landsvirkjunar. Mér finnst svo mikil skynsemi í henni því að það er hugsað fram í tímann og það er horft á að hámarka arðinn en ekki bara fjölga störfum eða stökkva á næsta hest sem býðst. Rammaáætlun er ákaflega mikilvæg í þessu samhengi öllu saman.

Það sem mér finnst kannski best er að það er í raun verið að leggja til að við leggjum pilsfaldakapítalismann endanlega á hilluna og skoðum verkefni í stærra samhengi. En mér finnst það merkilegt sem tengist svolítið þessari umræðu og umræðu um orkusölu almennt að þeir sem hafa kannski verið mestir talsmenn þess að einkavæða orkuna, einkavæðingar í orkugeiranum, eru súrir og svekktir þegar einkavætt orkufyrirtæki, rétt eins og Landsvirkjun, vill frekar selja orkuna einhverjum sem vill borga mikið fyrir hana en lítið.