140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:02]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem ég titla nú í fyrsta skipti með þessum hætti hér — það er ekki oft sem hún flytur þingmál — fyrir fína framsögu og fyrir það verk sem hún hefur unnið sem forseti Alþingis, þ.e. að skila þessu máli sem skýrslu inn í þingsal þar sem meðferð málsins er að mínu mati hæfilega opin, því það eru margir möguleikar í stöðunni. Við erum að feta hér nýja stigu sem ekki hafa verið farnir áður, held ég nokkurs staðar í heiminum, með ritun nýrrar stjórnarskrár. Það er mjög merkilegt framtak og því mjög mikilvægt að framhald ferlisins eins og það birtist okkur hér í dag sé að einhverju leyti opið.

Með hliðsjón af því höfum við í Hreyfingunni lagt fram þingsályktunartillögu sem við mæltum fyrir í síðustu viku um meðferð málsins í framhaldi af því að það verður afgreitt úr þingsal og til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem skýrsla. Þar er gert ráð fyrir mjög afmörkuðum tímarömmum fyrir hvert atriði málsins og að hugsanlega haldi áfram þetta samspil við stjórnlaganefnd og líka við þjóðkjörna stjórnlagaráðið sem muni svo á endanum óska eftir leiðbeiningum frá þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur nýja stjórnarskrá beint til efnislegrar meðferðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig henni lítist á þá þingsályktunartillögu. Hún er flutt af allnokkrum þingmönnum úr flestum flokkum og hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur í þinginu. Hvert er álit hv. þingmanns á því ferli sem þar er skráð?