140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að koma inn á nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem hv. þm. Pétur Blöndal nefnir hérna.

Í fyrsta lagi, til að svara því beint, tel ég að það sé ástæða til að breyta ýmsum atriðum í stjórnarskránni en ég sé ekki ástæðu til að endurskrifa allar greinar hennar. Það er mín afstaða.

Í öðru lagi varðandi ferlið tek ég fram að ég á ekki hugmynd að því ferli sem hér er uppi og ber ekki ábyrgð á því í sjálfu sér. Ég held að það sé hins vegar ágætisleið sem forseti þingsins hefur valið, þ.e. að opna umræðuna í þinginu með því að flytja málið í skýrsluformi. Síðan gengur það til viðkomandi þingnefndar eins og reyndar hefur lengi getað gengið upp með skýrslur sem geta gengið til nefnda sem hafa sjálfdæmi um hvað þær gera við þær. Ég held að út úr þessu geti komið frumvarp til stjórnarskipunarlaga samkvæmt formreglum þingsins. Það mun fá að minnsta kosti formlega meðferð í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og þingskapa. Ég tel að það sé hægt að halda sig við það ferli og ég er ekki spenntur fyrir einhverjum hjáleiðum eða krókaleiðum eins og margir hafa nefnt í þessari umræðu varðandi það.

Vilji menn raunverulega að kjósendur taki afstöðu til þeirrar nýju stjórnarskrár sem nú er í smíðum er hægur vandi að gera eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt til, að breyta fyrst því eina ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjallar um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar, 79. gr., (Forseti hringir.) og gera þær ráðstafanir. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur flutt (Forseti hringir.) þingmál um það og til eru eldri þingmál og tillögur sem hníga í sömu átt.