140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að taka fram varðandi ógildingu kosninganna að það var ekki vegna efa um réttmæti kjörs þeirra fulltrúa sem náðu kosningu. Þeir fulltrúar sem rituðu frumvarp að nýrri stjórnarskrá gera það í umboði 80–90 þús. kosningarbærra Íslendinga.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það ríkir ákveðið vantraust á þinginu um að leysa það verkefni að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Nú er einmitt kærkomið tækifæri fyrir okkur, alþingismenn Íslendinga, að sýna að við séum það þroskuð að við getum tekist á um efnisleg atriði þessara tillagna. Að sjálfsögðu eiga alþingismenn að hafa skoðun á þessum tillögum. Ég vil nota tækifærið, herra forseti, og hvetja þingheim til að taka starfshætti stjórnlagaráðs sér til fyrirmyndar og finna leið til að ná sátt um farsælar tillögur og til þess að koma þessum tillögum í farveg og vonandi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tek líka fram að það kemur ekki á óvart að þingmaðurinn hafi tekið þátt í kosningunni. Það mun koma mér á óvart ef hann styður ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, enda orðinn einn helsti talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna í þessu þingi. [Hlátur í þingsal.]