140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila lengi heldur um fortíðina við hv. þm. Birgi Ármannsson og rengi ekki það sem hann segir og vísar til orða Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi formanns stjórnarskrárnefndar. Í því sem ég hef lesið mér til og hér hefur verið rætt í þingsölum um ástæður þess að ekki náðist að leggja fram tillögur um nýja stjórnarskrá fyrir kosningar 2007 var auðlindakaflinn sérstaklega nefndur, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég efast hins vegar ekki um að málskotsréttur forseta Íslands hafi þvælst fyrir mönnum þá sem nú.

Það er rétt að lög um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra voru fyrst sett 21. desember 2006. Þau dugðu hins vegar ekki hætishót eins og lesa má í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem raktir eru í mörgum töflum allir þeir styrkir sem frambjóðendur nutu, stjórnmálamenn allra flokka annarra en Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fær tvær línur í þeim kafla og í þeim segir að þar hafi menn ekki notið slíkra styrkja.

Það þótti algerlega nauðsynlegt að breyta þeim lögum og var það auðvitað. Kínverjar töluðu um stóra stökkið og ég skal kyngja því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið stóra skrefið 2006 en það dugði hins vegar mjög skammt.