140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég upplifi það sem rauðan þráð í tillögu stjórnlagaráðsins að nýrri stjórnarskrá að þarna sé mjög verið að styrkja þingræðið. Þess vegna langar mig að eiga smáorðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um nákvæmlega þetta, þingræðið versus einhvers konar forsetaþingræði sem forseti Íslands gaf í skyn að væri verið að styrkja með frumvarpinu.

Forseti lýðveldisins hefur nefnt það sem dæmi að gert sé ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við stjórnarmyndun í þessu frumvarpi og tiltekur það sem röksemd fyrir meiri völdum forsetans. Ég á afskaplega erfitt með að skilja þetta atriði í rökstuðningi forsetans og langar að eiga smáorðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um það hvort hún upplifi þetta eins og ég. Eins og stjórnarskráin er núna hefur forsetinn það vald að veita stjórnmálaforingjum umboð til stjórnarmyndunar og ef ekki tekst að mynda ríkisstjórn getur forsetinn falið hverjum sem er á Íslandi umboð til að mynda ríkisstjórn. Það hefur gerst í lýðveldissögunni að utanaðkomandi maður hefur fengið umboð forsetans til að mynda ríkisstjórn, það var utanþingsstjórnin á stríðsárunum.

Samkvæmt frumvarpinu sem nú liggur fyrir hefur forsetinn ekki lengur þetta vald. Forsetinn verður núna að hlusta eftir því hver það er sem þingið vill að verði forsætisráðherra. Ef þingið kemur sér ekki saman, ef forseti Íslands er búinn að gera tvær tillögur um forsætisráðherra og það myndast ekki samkomulag, meira að segja þá fær forsetinn ekki vald til að skipa neinn annan forsætisráðherra. Það er þá þingið sem ákveður. Bara í þessu einstaka ferli er verið að styrkja þingræðið og mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Upplifir hún það ekki eins?