140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur átt við mig þegar hann hnussaði hérna rétt áðan biðst ég undan því, í alvöru. Þetta er mjög alvarlegt. Auðvitað tekur maður stundum afstöðu til mála með því að gefa eftir minni hagsmuni fyrir meiri. Ef maður til dæmis styður ríkisstjórn og vill að hún standi samþykkir maður ýmislegt sem hún kemur með af því að maður lítur á heildarmyndina. Þá er maður að gefa eftir minni hagsmuni fyrir meiri. En ég frábið mér að hv. þingmaður segi að ég fari ekki eftir sannfæringu minni og hnussi við. Þetta er virkilega meiðandi, svo ekki sé meira sagt.

Ef þjóðin á að greiða ráðgefandi atkvæði um stjórnarskrá er það ekkert annað en ráðgjöf, menn fara eftir henni eða fara ekki eftir henni. Það er ekki bindandi og mér finnst rangt að segja þjóðinni eitthvað annað. Það á að segja þjóðinni að þetta sé bara ráðgefandi. Það væri miklu betra að hafa þetta bindandi. Það er það sem ég vil og mér finnst virkilega dapurlegt að horfa upp á ferli sem virðist stefna í þá átt að hér verði samþykkt stjórnarskrá án þess að þjóðin greiði atkvæði um það nokkurn tímann. Þess vegna hef ég lagt fram tillögu um breytingu á 79. gr. sem menn samþykktu fyrst og síðan kæmi, mín vegna viku seinna, stjórnarskráin sjálf til atkvæða þannig að þjóðin hafi þá einhvern tímann greitt atkvæði um sína eigin stjórnarskrá í alvöru, og bindandi.