140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:31]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Hér fer því fram grundvallarumræða um grundvallarskjal íslenskrar löggjafar sem á að vera einfalt og skýrt en þó svo víðtækt að það snerti alla fleti íslensks þjóðlífs.

Það var fullkomlega tímabært að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni frá 1944, svo mikið hefur samfélag okkar og margt annað í uppbyggingu heimsins breyst. Til að tryggja aðkomu almennings að endurskoðuninni var fyrst haldinn þjóðfundur og síðan var kosið til stjórnlagaþings. Því miður komu fram formgallar á þeim kosningum sem urðu til þess að þær voru dæmdar ógildar af Hæstarétti. Þegar það lá ljóst fyrir tók við frekar erfitt samtal, bæði við eigin samvisku og félaga á þingi og utan þings, um hvað ætti í raun og veru að gera eftir þessa ógildingu. En ég verð að viðurkenna að eftir nokkurn tíma og góða umhugsun sannfærðist ég um að það væri fullkomlega ásættanleg leið að fá það fólk sem hlaut kosningu til þingsins til að mynda stjórnlagaráð sem ynni það mikilvæga verk að vinna að heildstæðri endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar.

Vinnubrögðum og starfsreglum stjórnlagaráðsins er lýst í skýrslunni á bls. 213 og ætla ég að leyfa mér að lesa það sem þar stendur, með leyfi forseta:

„Við fulltrúar í stjórnlagaráði,

af virðingu fyrir því trausti sem okkur hefur verið sýnt af þjóð og þingi með því að fela okkur það brýna verkefni að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins,

af ásetningi um að skila af okkur vönduðu verki innan settra tímamarka,

í anda uppbyggilegs og jákvæðs samstarfs, þar sem jafnréttis er gætt í hvívetna,

með þá ætlun að nota hófstillta rökræðu og málefnalega gagnrýni til að ná fram sátt fremur en að beita afli atkvæða,

með vísan til hugmynda þjóðfundar 2010 og með vilja til samráðs við þjóðina,

í þeirri ósk að víðtæk samstaða náist um frumvarp okkar að nýrri stjórnarskrá,

setjum ráðinu eftirfarandi starfsreglur.“

Þetta er í raun inngangurinn að starfsreglunum sem mér finnst vera einstaklega vel gerður. Þessar reglur eru nákvæmar og taka mið af opinni stjórnsýslu og umfjöllun og mikilli aðkomu almennings að vinnunni.

Þegar ný stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins tekur nú við málinu finnst mér miklu skipta að umfjöllunin sé opin og aðkoma almennings sé tryggð. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað í fullri alvöru að fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjalla um breytingar á stjórnarskránni séu opnir, jafnvel sendir út á netinu og að vefsvæði um málið sé opið á heimasíðu þingsins þar sem almenningur getur komið áliti sínu og athugasemdum á framfæri.

Mér finnst líka skipta máli að fram fari mikil umfjöllun á opinberum vettvangi um stjórnarskrármál almennt og þessar tillögur þar með, jafnvel að haldnar væru ráðstefnur og málfundir, og menn verði duglegir í umfjöllun í fjölmiðlum.

Ég lít á þessar tillögur stjórnlagaráðsins sem heildstætt plagg og finnst við eiga að líta á það sem slíkt þegar við fjöllum um það efnislega. Það verður að skoða allar greinar í samhengi við aðrar. Við verðum auðvitað að taka tillit til ákveðna tæknilegra annmarka, ef þeir kunna að vera fyrir hendi, og hugsanlegra árekstra einhvers staðar, en við megum ekki missa sjónar á því að þetta er heildstætt plagg.

Hlutverk nefndarinnar nú er að kalla til sérfræðinga, stjórnlagaráðsfólk og alla þá sem hún telur gott að eiga skoðanaskipti um þetta mál. Ég trúi því og treysti að við eigum eftir að eiga gott samstarf í nefndinni og getum nýtt okkur ný þingsköp til að skipta með okkur verkum í vinnunni, ástunda samvinnustjórnmál og góðar rökræður í anda vinnubragða stjórnlagaráðsins. Ég geri ráð fyrir því að áætlað ferli málsins verði rætt í nefndinni og ég geri ráð fyrir því að það ferli verði endurskoðað reglulega. Þar á meðal munum við tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað við viljum gera með hana. En það sem mér finnst skipta mestu máli, eins og ég hef sagt, er að ferlið verði opið og í sífelldri endurskoðun. Nútímaleg vinnubrögð og vinnulag stjórnlagaráðs verði í heiðri höfð, við viðhöfum vandaða umræðuhefð og vinna okkar verði sýnileg og aðkoma almennings að vinnu okkar verði greið.

Ég ítreka þá skoðun mína að líta á tillögur stjórnlagaráðsins sem heild. Við þurfum því að vanda okkur sérstaklega þegar við ræðum einstakar greinar og jafnvel breytum þeim. Heildarmyndin verður alltaf að vera í forgrunni. Agnúa og misfellur má að sjálfsögðu sníða af og gott er að ræða atriði eins og kosningafyrirkomulagið til fulls skilnings. Minni ég þar á fyrri orð mín um umræðu og fræðslu í samfélaginu.

Ég hef meðvitað ekki farið inn í efnisatriði tillagnanna en langar að lokum að upplýsa að ég á mér uppáhaldsgrein. Það er 8. gr. um mannlega reisn en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Sem sérstök áhugamanneskja um málefni fatlaðs fólks gladdi þessi grein mig sérstaklega. Mannleg reisn er nefnilega lykilhugtak í samskiptum fólks og í forgangsröðun samfélaga. Hér er ákveðinn tónn sleginn og hann á svo sannarlega samhljóm við minn lífstón. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég varð strax dálítið skotin í þessum tillögum stjórnlagaráðsins.

Ég hlakka til vinnunnar við þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni og efast ekki um að þar verða málefnaleg skoðanaskipti. Ég mun hvetja til þess að ferlið verði sem allra opnast og að aðkoma almennings að málinu verði þar sem allra mest.