140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég á við með þessu er að mér sýnist í þessari stjórnarskrá mikil áhersla t.d. vera lögð á réttindi stofnana. Ég staldra við ákvæði um það að ef þingið setur á laggirnar stofnun með einföldum meiri hluta sem það ákveður að sé mikilvæg þá þurfi aukinn meiri hluta, tvo þriðju hluta þingmanna, til að leggja hana niður. Vil ég þá benda á að það hefur verið þannig á undanförnum áratugum í það minnsta og sennilega alveg frá upphafi þessara flokka að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa alltaf náð a.m.k. einum þriðja hluta þingmanna. Með þessu væri því fyrirkomulag komið á laggirnar að aldrei yrði hægt að leggja niður mikilvæga stofnun nema Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykktu það í þinginu þó að meiri hluti væri fyrir öðru í þinginu. Ég held að þetta sé ekki skynsamlegt.

Hvað varðar núgildandi stjórnarskrá held ég að hún hafi reynst í grundvallaratriðum ágætlega. Stjórnarskrár taka þátt í því að skapa velmegun með því að stuðla að öryggi og trausti í samfélagi og skipta þess vegna máli en einar og sér gera þær það ekki. Það eru mörg dæmi um mjög metnaðarfullar stjórnarskrár víða um heim sem hafa verið skrifaðar en hafa ekki skilað borgurum neinum réttindum eða góðum kjörum. Um það eru fjölmörg dæmi. Það sem skiptir máli er skilningur okkar á stjórnarskránni og virðing fyrir þeim ákvæðum sem þar eru og þeim anda sem þar ríkir.

Ég held að andinn í íslensku stjórnarskránni hafi um margt verið ágætur og sé ágætur. En hún er ekki gallalaus. Ég held t.d. að mannréttindakaflinn sem kom inn í hana hafi verið vel hugsaður um mjög margt og hafi bætt hana og þörf hafi verið á honum. Svo að ég víki enn á ný að óskýrum ákvæðum vegna forsetaembættisins þá eru þau eins konar leifar af danska konungsembættinu í stjórnarskránni og hafa valdið okkur vandræðum. Það vil ég meðal annars leysa en ég er þeirrar skoðunar að núgildandi stjórnarskrá hafi reynst landinu alveg ágætlega.