140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega heimspekilega ræðu og vel ígrundaða, þó ég sé ekki að öllu leyti sammála henni.

Nú hafa verið gerðar nokkrar tilraunir og atlögur að því að breyta stjórnarskránni. Fyrrverandi hv. þm. Jón Kristjánsson fór fyrir einni nefndinni sem starfaði lengi og gekk mjög illa, aðallega út af misklíð um 26. gr., þó að kannski hafi eitthvað fleira komið þar til, ég þekki það ekki nákvæmlega. Spurningin er: Hefur hv. þingmaður trú á því að hægt sé að breyta stjórnarskránni með sambærilegu fyrirkomulagi? Sem sagt ekki með því að setja það í sérstakt ferli eins og gert var og leiddi til þeirra tillagna um breytingar á stjórnarskrá sem við ræðum í dag.

Varðandi séreignar- og sameignarstefnuna hefði ég viljað að hv. þingmaður nefndi dæmi, eins og t.d. Mongólíu þar sem eru hirðingjar og enginn á landið. Ef einhver setur niður kartöflur, getur hver sem er hirt þær. Þess vegna setur enginn niður kartöflur. Menn þurfa að eiga eitthvað til að geta starfað og byggt upp eitthvað nýtt.

Hv. þingmaður talaði um annarrar og þriðju kynslóðar mannréttindi, eða annarrar og þriðju gráðu mannréttindi. Mér finnst vanta í þessi drög núlltu gráðu mannréttindi, þau mannréttindi að engan má drepa. Ef drepa má fólk, hefur hitt ekkert að segja, málfrelsi og allt hitt. Það er náttúrlega nr. eitt, tvö og þrjú. Það sem einkennir annarrar og þriðju gráðu mannréttindi er að þau eru háð landamærum. Þau geta ekki gilt í Mongólíu eða Sómalíu vegna þess að það þarf efnahagslegan styrk til að geta veitt fólki góð og mannsæmandi kjör, það þarf efnahagslegan styrk og sterkt atvinnulíf til þess.