140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ágætisathugasemdir. Það er alveg hárrétt athugað hjá þingmanninum að eignarréttindi verða að vera tryggð til að einhver framþróun verði, getum við sagt. Annars verður þjóðfélagið eins og það er í Úlan Bator. En ég held reyndar að í þessum drögum sé skýrt kveðið á um eignarréttindi. Það er að vísu verið að skilgreina auðlindir sem þjóðareign, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á, þ.e. það er verið að breyta eignarréttarskilgreiningum þar, en hinn eiginlegi eignarréttur er tryggður.

Hvað varðar breytingar á stjórnarskrá er ég ekki þeirrar skoðunar að endurskrifa þurfi stjórnarskrána. Ég er þeirrar skoðunar að lagfæra megi það sem lagfæra þarf og Alþingi verður að bera gæfu til þess að gera þær breytingar sem þarf að gera. En ég tel aftur á móti glapræði að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni og ekki í neinu samræmi við tilefnið.