140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni út frá þeim tilraunum sem gerðar hafa verið til að breyta stjórnarskránni og hafa mistekist, hvort hann hefði trú á því að hægt væri að gera enn einu sinni svoleiðis tilraun til að breyta henni, þ.e. að hætta við þessa tillögu og fara þá leið að búa til þingmannanefndir sem byggju til nýja stjórnarskrá.

Varðandi mannréttindi sem eru háð landamærum og ef menn segja að tryggja þurfi öllum mannsæmandi lífskjör, þá er spurningin náttúrlega hvað það þýðir í samanburði við aðra. Eru það mannsæmandi lífskjör ef einhver hefur einn tíunda af því sem meðaltalið hefur? Hversu mikið þarf að þjappa þessum tekjustiga til að hægt sé að líta á það sem mannsæmandi lífskjör? Hvaða skaða hefur það í för með sér þegar farið er að skattleggja svo mikið, eins og heimilt er samkvæmt þessum tillögum og líka samkvæmt gildandi stjórnarskrá, að teknar eru eignir af ákveðnum hópum og tekinn hluti af lífskjörum þeirra og fluttur til annarra hópa? Í hve miklum mæli má ríkið stunda slíkt án þess að fara að skaða atvinnulífið og frumkvæði einstaklinga til að gera eitthvað? Gætum við hugsanlega lent í sömu stöðu og Mongólía með sína almenninga; að enginn geri neitt vegna þess að hann má ekki njóta þess?