140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel svo sem ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu og er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni og öðrum sem hér hafa talað að það þarf að huga vel að orðalagi. Í mörgum tilfellum held ég að það sé rétt þegar vísað er til þess að eitthvað beri að tryggja með lögum sem út af fyrir sig þarf ekkert að segja. Það þarf bara að gefa þá yfirlýsingu að svona skuli á málum haldið.

Ég get hins vegar ekki annað en gert athugasemd við þá rökræðuhefð sem hér er notuð og það er að vitna ekki rétt í texta. Það stendur hvergi í þessu plaggi að það eigi að tryggja öllum bestu heilbrigðisþjónustu í heimi eða neitt svoleiðis. Það stendur hins vegar að allir eigi „rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“. (BÁ: Hvað þýðir það?) Þar segir að fólk eigi rétt á því, allir, ekki bara til dæmis þeir sem eiga peninga eða eitthvað svoleiðis, heldur allir. Hérna stendur líka:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Hér er sagt að hér eigi að vera heilbrigðiskerfi sem sé opið öllum, ekki háð stétt, ekki háð efnahag, ekki neinu. Þetta þýðir einfaldlega það.

Ég er alveg sammála því að við þurfum að ræða þetta í þaula og hugsa hvað eigi að vera inni, en notum þá orðin sem hér liggja til grundvallar en ekki önnur.