140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi staldra við eitt atriði í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Það er vegna þess að hann nefndi 62. gr. tillagna stjórnlagaráðs sem varða þá nefnd sem kölluð er í tillögunum Lögrétta. Hv. þingmaður virtist hafa aðra hugmynd um útfærslu í því sambandi en hér er að finna. Ég vildi bara nota tækifærið til að vekja athygli á þessari grein. Þetta er meðal þeirra nýmæla sem er að finna í frumvarpinu sem mér sást yfir að nefna í ræðum mínum. Ég vil kannski nálgast þetta með pínulítið öðrum hætti en hv. þm. Pétur Blöndal en ég tel að þetta geti verið ágæt hugmynd, þ.e. hugmyndin eins og hún birtist í tillögutextanum og skýringum getur verið ágæt. Hana þarf bara að móta töluvert betur að mínu mati. Við þurfum t.d. að átta okkur á því hvert vægið á að vera. Maður les í skýringunum að þetta eigi fyrst og fremst að vera ráðgefandi en með því að setja ákvæði um þetta inn í stjórnarskrá er nefndinni gefið töluvert mikið vægi.

Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að hér er um enn eina greinina að ræða sem við þurfum að ræða töluvert nánar hvernig við viljum útfæra. Ég vildi að lokum líka segja, hæstv. forseti, ég verð að geta þess þó að það sé smekksatriði og tengist ekki neinu öðru, að mér finnst nafnið Lögrétta dálítið uppskrúfað.