140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær var hæstv. fjármálaráðherra í viðtali í þætti sem ber nafnið „Hard talk“ og er á BBC og mig langar að gera það að umræðuefni í dag.

Þegar Icesave-deilan stóð sem hæst ræddum við í stjórnarandstöðunni mikilvægi þess að stjórn og stjórnarandstaða kæmu saman á erlendum vettvangi til að verja hagsmuni Íslands. Hæstv. fjármálaráðherra stóð sig með miklum ágætum í þessum viðtalsþætti þar sem hart var að honum vegið, en ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki að hefja einhvers konar samræmdar aðgerðir til að verjast því áliti sem virðist vera á Íslandi víða erlendis og þeim aðgerðum sem Íslendingar hafa gripið til. Til að mynda hefði ég talið herra forseta Ólaf Ragnar Grímsson betur til þess fallinn að verja hagsmuni hvað varðar Icesave en hæstv. fjármálaráðherra í viðtalinu í gær. Ég hefði talið einhvern annan en hæstv. fjármálaráðherra betur til þess fallinn að útskýra af hverju við erum að sækja um inngöngu í Evrópusambandið þegar þáttarstjórnandinn benti réttilega á að Íslendingar kæmu betur út úr kreppunni en flestar aðrar Evrópuþjóðir, eingöngu vegna þess að við búum yfir sjálfstæðum gjaldmiðli og getum beitt aðferðum sem þjóðir innan Evrópusambandsins geta ekki.

Þetta finnst mér það mikilsvert að ég vona að stjórnarflokkarnir taki þetta upp og að við komum samhent fram á erlendum (Forseti hringir.) vettvangi.