140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Á þingi í síðustu viku, miðvikudaginn 5. október, spurði ég hæstv. utanríkisráðherra út í framlengingu umboðs Atlantshafsbandalagsins til að halda áfram hernaðaraðgerðum í Líbíu og hvernig sú ákvörðun hefði verið tekin hér á landi, hvort það hefði verið borið undir samstarfsflokkinn. Í svari hæstv. utanríkisráðherra kom fram, með leyfi forseta:

„Þegar ákvörðun var tekin núna, hin síðasta, þá leit ég svo á að þar væri ekki um meiri háttar utanríkismál að ræða. Þá lá það fyrir að átökin voru á svipuðu stigi og þau eru núna, nánast til lykta leidd. Það átti eftir að ljúka ákveðnum hlutum og það umboð sem óskað var eftir af hálfu Atlantshafsbandalagsins var þrír mánuðir til að ljúka því en menn töldu að það yrði miklu skemmri tími. Það var ástæðan fyrir því að ég taldi ekki þörf á að fara í utanríkismálanefnd.“

Ég spyr hv. formann utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, hvort hann sé sammála því mati hæstv. ráðherra að ákvörðun um framlengingu umboðs Atlantshafsbandalagsins og ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að styðja slíkt vegna hernaðaraðgerða í Líbíu sé ekki meiri háttar utanríkismál. Hver er skoðun þingmannsins á því?

Síðan kom líka fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Að því er varðar Líbíu tel ég raunar, eins og ég hef fært rök að í ræðustól Alþingis, að ég hefði getað tekið þá ákvörðun sem ég tók, hina fyrstu, án þess að ræða það við utanríkismálanefnd. Það er algerlega ljóst, og án þess að fara eftir því sem endilega hefði verið niðurstaða utanríkismálanefndar vegna þess að það er ekkert í lögunum sem segir að ég þurfi að fara eftir því.“

Er formaður utanríkismálanefndar sammála þeim skilningi ráðherra að hann geti tekið svona ákvörðun án aðkomu hv. utanríkismálanefndar og án þess að ræða það við nefndina? Ég mundi vilja fá svör hv. formanns utanríkismálanefndar við þessum spurningum.