140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson tók eiginlega sama pól í hæðina og ég ætlaði að taka, um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og fór ágætlega yfir málið út af þeirri umræðu sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kveikti hér á. Mig langar þó að nefna eitt þessu tengt sem er að mínu viti alveg sjálfsagt að hafa með í umræðunni. Við vitum að þegar bankarnir voru endurreistir klikkaði ríkisstjórnin á því að gæta hagsmuna heimilanna, þ.e. að gæta þess að afskriftirnar rynnu til heimilanna. Nú velti ég fyrir mér hvort það geti verið að ríkisstjórnin hafi glatað tækifærinu til að tryggja, ef til þess kæmi að sjávarútvegsfyrirtæki lentu hjá bönkunum, erlendu kröfuhöfunum sem ríkisstjórnin ákvað að selja eða afhenda bankana þegar þeir voru einkavæddir á ný, einhvers konar forkaupsrétt eða yfirráð ef þessi fyrirtæki kæmu til bankanna. Ég held að það sé augljóst að ríkisstjórnin hefur enn og aftur brugðist þegar kemur að því að ræða endurreisn bankakerfisins, einkavæðingu bankanna og afhendingu á þeim til kröfuhafanna.

Það er alveg ljóst að ef ríkisstjórnin hefði viljað slá einhvern varnagla varðandi sjávarútveginn hefði hún átt að gera það þegar hún hafði tækifærið til, þegar bankarnir voru einkavæddir á ný. Þar klikkaði ríkisstjórnin líkt og með heimilin.

Við Íslendingar verðum hins vegar að sjálfsögðu að passa okkur á því að glata ekki yfirráðum yfir auðlindum okkar til erlendra ríkja eða erlendra einstaklinga. Þar tek ég undir orð hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar þegar kemur að mögulegri inngöngu í Evrópusambandið, sem verður vonandi aldrei. Það er alveg skýrt hvernig hlutirnir líta þar út. En að mínu viti brást ríkisstjórnin í þessu máli eins og gagnvart heimilunum.