140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ákvörðun Landspítala – háskólasjúkrahúss um að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni núna í morgun kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Með henni er verið að rífa formála- og aðdragandalaust með rótum upp öfluga og vel rekna heilbrigðisstofnun sem hefur verið á þessum stað í 20 ár. Þarna er skákað í skjóli sparnaðar og óljósra faglegra ástæðna fyrir þessari afdrifaríku ákvörðun. Rökin eru sögð fagleg og þurfa 30 starfsmenn Sogns að sæta því að vinnustaður þeirra sé lagður niður og þeim boðið að sækja um ný og jafnvel önnur störf í Reykjavík og óljóst hvernig úr því spilast. Um fagleg rök má deila, enda var ákveðin fagleg ástæða fyrir vali staðsetningarinnar á sínum tíma. Með henni fólst auðvitað líka skuldbinding við samfélagið á staðnum. Því er óviðunandi og ámælisvert að ákvörðun um að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni sé tekin einhliða, aðdragandalaust af framkvæmdastjórum Landspítalans án samráðs við stjórnvöld, sveitarfélag og samfélagið eystra. Þá gengur ákvörðunin þvert á stefnu stjórnvalda í byggðamálum sem gengur meðal annars út á það, litið til 20/20-áætlunar og allra annarra opinberra gagna um landsbyggðina, að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og hlúa að þeim stofnunum sem þar eru fyrir. Þarna er um að ræða stóra stofnun, eins og ég tók fram áðan, stóran vinnustað sem skiptir gífurlega miklu máli.

Ég óska eftir því að fjárlaganefnd og þingmönnum kjördæmisins verði gerð grein fyrir ákvörðuninni og faglegum og fjárhagslegum forsendum hennar, á fundum núna áður en vikan er liðin. Í hverju felst hagræðið, hver eru faglegu rökin og hvernig stendur á því að slík ákvörðun er tekin með þessum hætti? Það er að sjálfsögðu holur hljómur í öllu tali um byggðastefnu ef þessi ákvörðun gengur eftir.