140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að fá að gera það að umtalsefni að ég sakna þess í málaskrá fjármálaráðherra að ekki er minnst á frumvarp um skattfrádrátt vegna kaupa á hlutabréfum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta mál verður að koma fram í þinginu enda mikilvægt að við styðjum sérstaklega við þessa grein. Um 30% fyrirtækja í þessum geira hafa fengið gylliboð um að flytja starfsemi sína til útlanda.

Þá langar mig einnig að gera að umtalsefni nýjustu fregnir af stöðu HB Granda og taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um mikilvægi þess að skilja á milli eignaraðildar á auðlindinni og nýtingar á auðlindinni. Þetta mál sýnir okkur svart á hvítu hversu mikilvægt er að skilja þar á milli sem allra fyrst og vonandi munu þingmenn allir koma með okkur í það verkefni á þessum þingvetri. Við verðum að skapa útveginum möguleika til að skila arðsemi þar sem menn geta rekið greinina á viðskiptalegum forsendum en við eigum um leið að tryggja að þjóðin öll fái hlutdeild í þeirri arðsemi sem greinin gefur. Það er verkefni okkar.

Mér þótti einkennilegt að heyra í forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins tala um þennan lið rétt áðan vegna þess að ég veit ekki betur en að sá flokkur hafi verið fylgjandi erlendri fjárfestingu í orkufyrirtæki, HS Orku, suður með sjó. Þar kom inn Magma Energy og sjálfstæðismenn studdu að þangað kæmi inn erlent fjármagn. En þeir eru ekki samþykkir því að hið sama gildi um fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi. Hver er munurinn á þessum tveimur geirum? Jú, í öðrum þeirra erum við búin að skilja á milli nýtingar auðlindar og eignarhalds auðlindar en við höfum ekki gert það í sjávarútvegi. Þetta sýnir svart á hvítu mikilvægi þess að við göngum í þetta verkefni hið allra fyrsta.

Sá veruleiki sem við okkur blasir sýnir líka muninn á lánsfé og eignaraðild. Þessi fyrirtæki hafa möguleika til að gera upp í evrum og hafa þannig aðgengi að erlendu fjármagni til að styðja við reksturinn. Lánsféð er erlent og erlendir bankar standa á bak við fyrirtækin. Ef um það er að ræða lenda fyrirtækin oft (Forseti hringir.) í því að viðkomandi stendur ekki með fyrirtækjunum í rekstrinum en það gildir á hinn bóginn þegar um er að ræða eignaraðild.