140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka þátt í umræðunni sem hv. 1. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, hóf áðan um málefni réttargeðdeildarinnar á Sogni. Það voru að sjálfsögðu sláandi fréttir sem komu hér í morgunsárið af starfsmannafundi þar sem tilkynnt var að starfseminni yrði lokað og hún flutt til Reykjavíkur, á Klepp.

Ég hélt að við öll hefðum lært eitthvað af umræðunni í fyrra, Landspítalinn þar ekki undanskilinn, að svona ákvarðanir á ekki að taka án undangengins samráðs við hlutaðeigendur. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki líðandi. Ég hélt að eftir öll lætin sem urðu í fyrra vegna úrvinnslu á tillögum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, hefðu menn lært eitthvað af reynslunni. Svo virðist því miður ekki vera. Þessa ákvörðun þurfum við að skoða, það þarf að endurskoða hana og ég fagna því að hv. 1. þm. Suðurk. hefur þegar óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Landspítalans til að fara yfir ákvörðunina og forsendurnar að baki henni.

Það er einfaldlega ekki hægt að slá því fram að þetta verði allt í lagi vegna þess að fólkinu sem þarna vinnur bjóðist störf í Reykjavík. Lausnin á vandamálum okkar varðandi endurskipulagningu ríkisfjármálanna er ekki fólgin í því að flytja störfin til Reykjavíkur og bjóða fólkinu sem býr á landsbyggðinni að flytja með suður. Ég sé ekki að það sé lausn, því miður. Þetta verklag er ekki til fyrirmyndar og við munum að sjálfsögðu berjast gegn því. Þetta er reiðarslag fyrir íbúa Suðurlands og mikil blóðtaka fyrir atvinnulífið þar og það ágæta fólk sem er í miklu áfalli yfir því hvernig staðið er að þessum málum.