140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vildi koma hér upp og blanda mér í umræðuna um niðurskurðarhugmyndirnar, ekki síst í heilbrigðisgeiranum. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan, um að niðurskurðurinn á síðasta ári bitnaði auðvitað fyrst og fremst á kvennastörfum, því miður mjög gjarnan á landsbyggðinni. Nú heyrðist það í morgun að skera eigi niður á réttargeðdeildinni á Sogni með skyndilegum hætti — ég er ánægður með að 1. þm. Suðurkjördæmis hafi brugðist svo skarpt við — og þá er það ekki gert á sómasamlegan hátt í samráði við heimaaðila og upplýsingar veittar, því þetta er auðvitað viðkvæmur vinnustaður. Sagt er að þetta eigi að gerast undir þeim formerkjum að spara fjármuni og það er talað húsnæðismál. Ég hef ekki heyrt að Kleppur sé sérstaklega tilbúinn til þess að taka við þessari deild og húsnæðið þar sé neitt sérstaklega frábært. Á Sogni hefur aftur á móti verið starfsemi í 20 ár og um 50–60 sjúklingar farið þar í gegn. Þar eru til að mynda tvö pláss laus núna. Haft var eftir forsvarsmanni LSH í hádegisútvarpinu að þarna mundu skapast tvö, þrjú ný pláss strax, en það eru tvö pláss laus nú þegar, þannig að það virðist ekki vera bráður vandi á að leysa þetta svona.

Það alvarlega í þessu og sem þarf að taka til umræðu hér í þingsal og í samfélaginu, er á hvaða leið við erum eiginlega. Á að skera niður alla þjónustu á landsbyggðinni og færa hana til Reykjavíkur? Það er sama hvort það eru fangelsismál, þessi deild eða heilbrigðisstofnanirnar hringinn í kringum landið, það á að byggja upp nýtt stórt sjúkrahús í Reykjavík fyrir 40 milljarða í 1. áfanga og enda í 100 milljörðum, en á meðan á að skera allt niður og allt fólk á landsbyggðinni á að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur. (Gripið fram í: Rétt.) Höfum við tekið upplýsta umræðu um þetta? Ætlum við okkur að gera (Forseti hringir.) landið að einu borgríki á suðvesturhorninu? Það getur ekki verið að við stefnum þangað.