140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræði hér mál sem við þekkjum öll mjög vel, enda um fátt annað meira rætt en yfirfærslu á eignum frá gömlu bönkunum yfir til hinna nýju og hvernig hún hefur skilað sér til einstaklinga og fyrirtækja. Ég bið ekki um þessa umræðu til þess að fara í enn eitt karpið um vinnubrögð og hraða í þessu máli. Ég vonast til að umræðan verði til þess að varpa ljósi á, ef ekki í umræðunni þá í framhaldinu, hvernig er í pottinn búið og á þeim grunni ættum við að geta unnið okkur áfram.

Ég lagði eftirfarandi fyrirspurnir, virðulegi forseti, til hæstv. ráðherra. Þær eru þessar:

Hverjar eru raunverulegar leiðréttingar lánasafns á milli gömlu og nýju bankanna?

Hvernig stendur á því að aðrar tölur eru frá Seðlabankanum en öðrum?

Hvernig hafa þessar leiðréttingar skilað sér til heimila og fyrirtækja?

Hversu hratt hafa þær skilað sér til heimila og fyrirtækja?

Áhyggjur mínar eru einfaldlega þessar. Ég hef áhyggjur af því að við séum á leiðinni inn í japanskt ástand. Hvað er japanskt ástand? Það er þegar fyrirtæki og einstaklingar eru fyrst og fremst að greiða vexti en safna ekki neinu eigin fé. Þetta gerðist í kjölfar banka- og efnahagskrísu í Japan fyrir einum eða tveimur áratugum síðan og þeir hafa verið nokkurn veginn fastir í sömu sporum vegna þessarar stöðu.

Ef við skoðum núna afkomu bankanna og að minnsta kosti þá ársreikninga sem birtir hafa verið fram til þessa, sér hver maður að þeir hafa fram til þessa einkennst af því að afkoman, sem sýnir gríðarlegan hagnað, er fyrst og fremst til komin vegna þess að verið er að endurreikna lán, lán sem fóru á lágu verði inn í nýju bankana. Talið er að hægt sé að fá meira út úr þeim og þar af leiðandi er sú eign verðmeiri og einhverra hluta vegna er hún oftar en ekki skráð eða talin til tekna í rekstrarreikningum bankanna, sem er nú sérkapítuli út af fyrir sig.

Síðan hafa, t.d. á árinu 2010 í stóru bönkunum þremur, 43 milljarðar skilað sér til eigendanna, svokallaðra kröfuhafa, vegna þessa endurmats eða hagnaðar. Það er að vísu reiknað með misjöfnum aðferðum eftir bönkunum þremur, en talan er um 43 milljarðar. Þá er það hin hliðin, virðulegi forseti, en það er á hvaða kjörum þessar eignir, þ.e. lánasöfnin, fóru inn í bankana. Nú hafa margir spurt að þessu. Almenna reglan er sú að það eru aldrei sömu svörin. Ég vek t.d. athygli á því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurðist fyrir um þetta fyrir nokkuð löngu síðan. Hann fékk það svar að að meðaltali hefði endurmatið eða húsnæðislánin farið inn á 72% af virðum eignanna. Ég spurðist fyrir um þetta og bað um sundurgreiningu á bönkunum þremur. Eina ákveðna svarið sem ég fékk varðaði Landsbankann og þá hafði verið greitt fyrir 66% af virðum lánanna af nýju bönkunum. Síðan tók Annas Sigmundsson, blaðamaður á DV, tölur upp úr tölum Seðlabankans og samkvæmt niðurstöðum hans er virði eignanna, húsnæðislánanna, 50%.

Virðulegi forseti. Í stað þess að við séum að þræta um þetta, er ekki kominn sá tími, allra hluta vegna, að við fáum óháðan aðila til að fara yfir þetta, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða einhver annar? Og vill hæstv. ráðherra ekki beita sér fyrir því? Þó að ekki væri til annars en að við gætum tekið málefnalegri umræðu um hvað sé hér á ferðinni, sem er markmið í sjálfu sér.

Það hagnast enginn á þessu ástandi í dag. Það hagnast enginn á því að bankarnir sýni einhvern gríðarlegan hagnað sem fyrst og fremst er til kominn út af endurmati eigna, en það er eiginlega engar tekjur af hefðbundinni bankastarfsemi. Það er enginn sem hagnast á því til lengri tíma litið ef fyrirtæki og einstaklingar eru yfirskuldsett á Íslandi. Enginn mun hagnast á því, í það minnsta enginn Íslendingur og ekki einu sinni bankarnir.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra muni upplýsa okkur um þetta og svara þessum spurningum. Ef ekki, (Forseti hringir.) vonast ég til þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þeim verði svarað þannig að við getum haldið endurreisninni áfram.